Erlent

Heimsins nýjasta eyja lítur dagsins ljós

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Ný eyja rís úr sæ við strendur Japans.
Ný eyja rís úr sæ við strendur Japans. Setsuya Namada

Heimsins nýjasta eyja reis úr sæ við strendur japönsku eyjarinnar Iwo Jima í Kyrrahafinu í síðustu viku. Veðurstofa Japans sagði í viðtali við CNN að enn nafnlausa eyjan hafi myndast í neðansjávargosi.

Landhelgisgæsla Japans náði af eyjunni myndum fyrsta nóvember og á myndunum sést gosmökkur streyma úr eyjunni litlu sem myndar nú hluta Ogasawara-eyjaklasans. 

Það hefur verið gosvirkni á svæðinu alveg síðan í fyrra en sérfræðingar við Tókýó-háskóla hafa staðfest að gosið hafi átt sér stað 30. október. Setsuja Nakada, prófessor emerítus í eldfjallafræði við skólann, sagði í viðtali við Japan Times í vikunni að kvikusöfnun hafi verið neðansjávar í dágóðan tíma áður en eyjan hóf að teygja sig upp fyrir vatnsyfirborðið.

Eyjan er mynduð úr vikri og því gæti hún veðrast aftur niður fyrir yfirborðið en ef virknin heldur áfram telur Setsuja að hún haldi sér uppi. „Hraunlausu svæðin geta veðrast niður. Þannig ef hraunflæðið eykst og þekur alla eyjuna, hugsa ég að hún muni verða þarna að eilífu,“ segir Setsuja. Hann bætir þó við að óvíst sé hvort gosið haldi áfram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×