Íslenski boltinn

Fer frá ÍBV til Fenerbahce en kemur samt fljótt aftur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olga Sevcova í leik með ÍBV en hún hefur skorað 20 mörk fyrir liðið í Bestu deildinni.
Olga Sevcova í leik með ÍBV en hún hefur skorað 20 mörk fyrir liðið í Bestu deildinni. Vísir/Bára

Olga Sevcova, lykilmaður í kvennafótboltaliði ÍBV, hefur gert samning við tyrkneska félagið Fenerbahce en hún var kynnt á miðlum tyrkneska félagsins.

Þessi 31 árs gamli vængmaður yfirgefur nú Vestmannaeyjar og reynir fyrir sér hjá næstefsta liði tyrknesku deildarinnar. Hún er þó alls ekki farin fyrir fullt og allt.

Það fylgir sögunni að Olga var líka að skrifa undir nýjan tveggja ára samning við ÍBV. Hún fer því á láni til Tyrklands. Olga kemur því fljótt aftur til Vestmannaeyja.

„Það er mikilvægt fyrir ÍBV að halda Olgu hjá félaginu en hún er frábær leikmaður og karakter innan liðsins,“ segir í frétt ÍBV.

Fenerbahce hefur náð í 24 stig af 26 mögulegum á þessu tímabili og er með markatöluna 21-3. Yagmur Uraz er markahæsti leikmaður liðsins og deildarinnar með tíu mörk. Efsta liðið í deildinni er Fomget GSK sem er með aðeins einu stigi meira.

Sevcova hefur spilað með ÍBV í Bestu deild kvenna undanfarin fjögur tímabil. ÍBV liðið féll úr Bestu deildinni í haust.

Í sumar var Olga með sex mörk og tvær stoðsendingar í tuttugu leikjum á 2023 tímabilinu. Hún hefur alls skorað tuttugu mörk fyrir ÍBV í efstu deild.

Sevcova er lettnesk landsliðskona og hefur spilað fimmtíu landsleiki fyrir þjóð sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×