Erlent

Banda­ríkja­menn gera á­rásir á skot­mörk í Sýr­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Patrick Ryder, talsmaður Pentagon, greindi frá því í gær að að minnsta kosti sextán árásir hefðu verið gerðar á starfstöðvar Bandaríkjanna í Sýrlandi og Írak.
Patrick Ryder, talsmaður Pentagon, greindi frá því í gær að að minnsta kosti sextán árásir hefðu verið gerðar á starfstöðvar Bandaríkjanna í Sýrlandi og Írak. AP/Kevin Wolf

Bandaríski herinn gerði loftárásir á tvö skotmörk í Sýrlandi tengd Byltingarvarðsveit Íran (e. Revolutionary Guard Corps) nú í morgun. Reuters hefur eftir heimildarmanni að um hafi verið að ræða vopna- og skotfærageymslur.

Varnarmálaráðherrann Lloyd Austin sagði í yfirlýsingu að um hefði verið að ræða hnitmiðaðar „sjálfsvarnarárásir“ en bardagahópar studdir af Byltingarvarðsveitinni hafa gert fjölda dróna- og eldflaugaárása á bandarískar starfstöðvar í Sýrlandi og Írak frá því í síðustu viku.

Austin sagði Joe Biden Bandaríkjaforseta hafa fyrirskipað árásirnar, sem væri meðal annars ætlað að senda skýr skilaboð um að Bandaríkin myndu ekki umbera árásir af þessu tagi og grípa til aðgerða til að vernda starfsfólk sitt og hagsmuni.

Samkvæmt hermálayfirvöldum vestanhafs hafa að minnsta kosti tólf árásir verið gerðar á starfstöðvar Bandaríkjanna í Írak og fjórar í Sýrlandi frá 17. október síðastliðnum. Fleiri en 24 hermenn hafa særst í árásunum og einn verktaki lést eftir að hafa farið í hjartastopp á meðan ein árásanna stóð yfir.

Áhyggjur eru uppi um að átökin milli Ísraelsmanna og Hamas muni breiðast út en ýmsar vopnaðar hreyfingar hafa látið til sín taka í stuðningi við Hamas, þar á meðal Hezbollah í Líbanon. Þá hafa ýmis Arabaríki varað Ísraelsmenn við því að halda árásum áfram og ráðast inn á Gasa.

Bandaríkjamenn hafa aukið viðbúnað sinn á svæðinu og lýst yfir nær skilyrðislausum stuðningi við Ísrael.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×