Erlent

Ísraelar samþykkja að bíða með innrás

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísraelskir hermenn skjóta sprengikúlum á Gasaströndina.
Ísraelskir hermenn skjóta sprengikúlum á Gasaströndina. AP/Tsafrir Abayov

Yfirvöld í Ísrael eru sögð hafa samþykkt beiðni frá ráðamönnum Bandaríkjanna um að bíða með innrás á Gasaströndina. Þannig vilja Bandaríkjamenn fá tíma til að auka viðbúnað sinn og þá sérstaklega loftvarnir í Mið-Austurlöndum.

Samkvæmt heimildum Wall Street Journal vinna Bandaríkjamenn að því að koma fjölda loftvarnarkerfa til Mið-Austurlanda til að verja bandaríska hermenn í Írak, Sýrlandi, Kúveit, Jórdaníu, Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Þetta hefur WSJ eftir bandarískum embættismönnum og fólki sem sagt er þekkja til ætlana Ísraela.

Frá því stríðið milli Hamas-samtakanna og Ísraela hófst með mannskæðum og hrottalegum árásum Hamas-liða á suðurhluta Ísraels, hafa að minnsta kosti þrettán árásir verið gerðar á herstöðvar Bandaríkjanna í Írak og í Sýrlandi. Þær hafa verið gerðar með drónum og eldflaugum og eru rúmlega þrjátíu hermenn sagðir hafa særst lítillega.

Ráðamenn í Bandaríkjunum búast við því að þessum árásum muni fjölga með innrás Ísraela á Gasaströndina.

Allt frá því ísraelskir hermenn gengu úr skugga um að engir vígamenn Hamas-samtakanna væru enn Ísraelsmegin við girðinguna kringum Gasaströndina, hefur verið búist við því að Ísraelar geri innrás á Gasa. Yfirlýst markmið ráðamanna í Ísrael er að gera útaf við samtökin sem hafa stjórnað svæðinu frá 2005.

Samkvæmt heilbrigðisráðuneyti Gasastrandarinnar, sem stýrt er af Hamas-samtökunum, hafa um 6.500 Palestínumenn fallið í loft- og stórskotaliðsárásum Ísraela á Gasaströndina.

Innrás á Gasaströndina myndi hafa hörmulegar afleiðingar fyrir íbúa þar, leiða til mun meira eignatjóns en hingað hefur sést og líklega myndu margir ísraelskir hermenn og Hamas-liðar verða felldir í átökum.

Gasaströndin er eitthvert þéttbýlasta svæði heimsins. Það er um fjörutíu kílómetrar að lengd og um tíu kílómetrar að breidd og þar búa um 2,3 milljónir manna. Þar að auki hafa Hamas-liðar grafið þar umfangsmikið gangakerfi.


Tengdar fréttir

Bjóða öryggi fyrir upplýsingar um gísla

Ísraelski herinn varpaði í dag blöðum úr lofti yfir Gasaströndinni. Á þeim eru íbúar beðnir um upplýsingar um gísla Hamas-samtakanna. Í skiptum fengi fólk öryggi og peninga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×