Erlent

Ís­land verði að taka af­stöðu gegn á­rásum Ísraels á Gasa

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hjálmtýr Heiðdal er formaður Ísland-Palestína. Boðað hefur verið til samstöðufundar með Palestínumönnum á Austurvelli í dag.
Hjálmtýr Heiðdal er formaður Ísland-Palestína. Boðað hefur verið til samstöðufundar með Palestínumönnum á Austurvelli í dag.

Formaður félagsins Ísland-Palestína segir íslensk stjórnvöld verða að taka afstöðu gegn ástandinu á Gasaströndinni, sem Ísrael hafi skapað. Boðað hefur verið til samstöðufundar á Austurvelli, á meðan innrás Ísraelshers á Gasa er yfirvofandi.

Þúsundir Palestínu­manna halda á­fram að flýja frá norður­hluta Gasa­strandar í að­draganda inn­rásar Ísraels­hers. Herinn hefur til­kynnt að inn­rásin verði gerð á landi, í lofti og af sjó. Í hið minnsta 1300 Ísraels­menn hafa látið lífið í árásum Hamas liða og um 3.400 eru særðir. Þá hafa um 2.400 Palestínu­menn verið drepnir í á­tökunum og rúm­lega tíu þúsund manns særst í loft­á­rásum Ísraels­manna. Tugir þúsunda íbúa á Gasa hafa yfir­gefið heimili sín.

Félagið Ísland-Palestína hefur blásið til samstöðufundar á Austurvelli klukkan þrjú í dag, undir yfirskriftinni Samstaða með Palestínu - stöðvið fjöldamorð Ísraelshers. Formaður félagsins segir vestræn stjórnvöld hafa tekið einhliða afstöðu með Ísrael en fordæmi árásir Hamas-liða.

„Við erum að mótmæla líka afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar. Hún hefur fallið í þennan kór sem fordæmir einhliða,“ segir Hjálmtýr Heiðdal, formaður Íslands-Palestínu.

Með einhliða fordæmingu sé verið að gefa skotleyfi á saklausa Palestínumenn. Yfirvofandi innrás sé þannig með stuðningi Vesturlanda. Ísland sé eitt tveggja vestrænna ríkja sem hafi viðurkennt tilvist palestínsk ríkis. 

„Ísland verður að framfylgja þessari viðurkenningu með því að taka afstöðu gegn ástandinu sem Ísrael hefur skapað.“

Félagið Ísland-Palestína fordæmi allar árásir á almenna borgara, sama hver á í hlut.

„En við leggjum sérstaklega áherslu á það að við fordæmum árásir Ísraelshers á vopnlausa borgara, með stórfelldum hernaðartækjum, með stuðningi vesturlanda. Það er meginatriðið sem blasir við,“ segir Hjálmtýr.

Fundurinn verður á Austurvelli klukkan þrjú í dag. Þar verða flutt stutt ávörp, sungið og að lokum samþykkt ályktun félagsins sem verður send ríkisstjórninni.


Tengdar fréttir

Hafi þrjár klukku­stundir til að flýja Gasa

Þúsundir Palestínu­manna halda á­fram að flýja frá norður­hluta Gasa­strandar í að­draganda inn­rásar Ísraels­hers. Herinn hefur til­kynnt að inn­rásin verði gerð á landi, í lofti og af sjó. Íranir hafa hótað Ísraels­mönnum að bregðast við haldi Ísraelar á­fram hernaði sínum gegn Gasa.

Ísraelski herinn undir­býr alls­herjar­á­rás

Þúsundir Palestínumanna flúðu norðurhluta Gasastrandarinnar í dag á meðan Ísraelar undirbjuggu innrás og létu loftárásir dynja á Gasasvæðinu. Benjamín Netanjahú sagði „næsta stig yfirvofandi“ og ísraelski herinn ætlar að ráðast á svæðið úr lofti, landi og legi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×