Erlent

Segjast ekki hafa endur­heimt lík fallinna borgara

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Palestínskar fjölskyldur á flótta frá norðurhluta Gasastrandarinnar í gær.
Palestínskar fjölskyldur á flótta frá norðurhluta Gasastrandarinnar í gær. AP/Hatem Moussa

Ísraels­her hefur sent frá sér yfir­lýsingu þar sem því er hafnað að herinn hafi náð að endur­heimta lík tugi borgara sem fallið hafi í árás Hamas liða í suður­hluta Ísrael.

Áður höfðu er­lendir miðlar full­yrt að Ísraels­her hefði tekist að endur­heimta lík nokkurra gísla sem Hamas liðar hefðu haft á brott með sér á Gasa­ströndina, í sér­stakri hernaðar­að­gerð. Breska ríkis­út­varpið hefur nú eftir hernum að þetta sé ekki rétt.

Þá segist tals­maður hersins ekki hafa upp­lýsingar um það hvaðan þessar frá­sagnir hafi komið. Þær séu ekki frá hernum, sem hafi engar upp­lýsingar um slíka að­gerð. Í hið minnsta 1300 manns létust í á­rásum Hamas liða í suður­hluta Ísrael síðast­liðinn laugar­dag, hundruð þeirra voru er­lendir ríkis­borgarar.

Hafa á­hyggjur af stig­mögnun á­takanna

Þá hefur breska ríkis­út­varpið eftir Ayman Safadi, utan­ríkis­ráð­herra Jór­daníu, ná­granna­ríkis Ísrael, að yfir­völd þar í landi hafi miklar á­hyggjur af vel­ferð Palestínu­manna á Gasa­ströndinni.

Hann segir að yfir­völd þar í landi óttist að haldi Ísraels­menn á­fram að reka Palestínu­menn á brott muni það leiða til stig­mögnun á­taka í Mið­austur­löndum. Þá segir hann að ísraelsk stjórn­völd hafi komið í veg fyrir að birgðir hjálpar­sam­taka komist til Gasa.

Ísraels­menn hafa lagt 1300 byggingar í rúst á Gasa­ströndinni með loft­á­rásum sínum. Þeir hafa lýst því yfir að inn­rás á Gasa­ströndina sé yfir­vofandi og skipað milljón í­búum á norður­hluta Gasa­strandarinnar að yfir­gefa heimili sín. Um 1.900 Palestínu­menn hafa látist í að­gerðum Ísraels­hers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×