Erlent

Nota lífsýni til að bera kennsl á lík

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar virða fyrir sér staðinn þar sem rútan fór fram af brúnni.
Lögregluþjónar virða fyrir sér staðinn þar sem rútan fór fram af brúnni. AP/Antonio Calanni

Enn er ekki búið að bera kennsl á alla þá sem dóu þegar rúta fór fram af brú nærri Feneyjum á Ítalíu í gær. Minnst 21 lést en 39 ferðamenn voru um borð í rútunni. Líklega þarf að nota lífsýni til að bera kennsl á einhver líkanna, þar sem engin skilríki fundust á þeim.

Hvað olli slysinu liggur ekki fyrir en um þrettán tonna rafmagnsrútu var að ræða. Vitni segja að rútan hafi ekið utan í vegrið um það bil fimmtíu metra, áður en rútan fór fram af brúnni og féll um fimmtán metra á veg þar fyrir neðan. Við það kviknaði í rútunni.

Sjá einnig: Minnst tuttugu látnir eftir rútu­slys á Ítalíu

Samkvæmt ítölsku fréttaveitunni ANSA er verið að skoða ökurita rútunnar til að reyna að varpa ljósi á hvað gerðist. Búið er að bera kennsl á átta þeirra sem létust, þeirra á meðal er eins og hálfs árs drengur.

Í frétt BBC segir að mikið af ungu fólki hafi verið um borð í rútunni og meðal þeirra fimmtán sem slösuðust séu táningar og tvö yngri börn. Tveir bræður frá Þýskalandi, sem eru sjö ára og þrettán ára, brutu bein í slysinu. Báðir foreldrar drengjanna dóu. Fimm eru sögðu í alvarlegu ástandi.

Meðal þeirra sem dóu er kona sem var í brúðkaupsferð ásamt eiginmanni sínum. Hún var um tvítugt og lést í slysinu en hann er slasaður og liggur ástand hans ekki fyrir, samkvæmt ANSA.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×