Erlent

Örlög McCarthy ráðast líklega í dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Kevin McCarthy hefur staðið í ströngu undanfarna daga og er útlit fyrir að honum verði vellt úr sessi sem þingforseti í dag. Hann hefur þó nokkrar leiðir til að komast hjá því, að minnsta kosti í bili.
Kevin McCarthy hefur staðið í ströngu undanfarna daga og er útlit fyrir að honum verði vellt úr sessi sem þingforseti í dag. Hann hefur þó nokkrar leiðir til að komast hjá því, að minnsta kosti í bili. AP/J. Scott Applewhite

Kevin McCarthy, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sagði þingflokki Repúblikanaflokksins í dag að atkvæðagreiðsla um vantrauststillögu gegn honum fari fram seinnipartinn. Greiði allir Demókratar atkvæði með tillögunni geta einungis fimm Repúblikanar velt McCarthy úr sessi.

Lætin á þinginu fylgja mikilli óreiðu og uppreisn hóps fjar-hægri þingmanna Repúblikanaflokksins, sem reyndu að þvinga McCarthy til mikils niðurskurðar, sem hefði aldrei verið samþykktur í öldungadeildinni og því hefði neyðst til að loka opinberum stofnunum í Bandaríkjunum.

McCarthy gerði samkomulag við Demókrata um helgina og voru bráðabirgðafjárlög samþykkt á síðustu stundu.

Sjá einnig: Sam­þ­ykkt­­u bráð­a­birð­ga­fjár­l­ög á síð­­ust­­u stund­­u

Matt Gaetz, einn áðurnefndra uppreisnarmanna, lagði fram vantrauststillögu í gærkvöldi. Í kjölfarið funduðu þingmenn Repúblikanaflokksins og þar tilkynnti McCarthy að atkvæðagreiðslan færi fram í dag.

Ólíklegt þykir að Demókratar muni koma McCarthy til aðstoðar, þó einhverjir þingmenn Repúblikanaflokksins, hafi kallað eftir því. Sjálfur sagðist McCarthy ekki vilja gera einhverskonar samkomulag við Demókrata um að deila völdum á þingi.

Þingmaðurinn Matt Gaetz hefur lagt fram vantrauststillögu gegn Kevin McCarthy vegna þess að sá síðarnefndi gerði samkomulag við Demókrata um að samþykkja bráðabirgðafjárlög um helgina.AP/Mark Schiefelbein

Hann sagði einnig eftir fundinn í dag að einungis fimm Repúblikanar þurfi að greiða atkvæði gegn sér til að tillagan nái í gegn, greiði allir Demókratar atkvæði með henni. McCarthy sagði að svo virtist sem að minnst fimm Repúblikanar myndu greiða atkvæði gegn honum.

Tvö þingsæti sitja þó tóm og minnst einn Demókrati er ekki í Washington DC. Ekki er ljóst hvort allir sitjandi þingmenn geti verið í salnum þegar atkvæðagreiðslan fer fram.

Hakeem Jeffries, leiðtogi þingflokks Demókrata, sagði skömmu fyrir birtingu greinarinnar að allir Demókratar ættu að greiða atkvæði með því að velta McCarthy úr sessi.

Demókratar eru ekki sáttir við McCarthy og má það að miklu leyti rekja til ákvörðunar hans um að láta eftir uppreisnarmönnunum í Repúblikanaflokknum og hefja formlega rannsókn á Joe Biden, forseta, fyrir meint brot í embætti.

Sjá einnig: Lítið nýtt á „hörm­u­leg­um“ fund­i um Biden

Eftir fundinn ræddi McCarthy við blaðamenn en sjá má hluta af því samtali hér að neðan.

Seinna í dag mun Gaetz leggja fram tillögu sína formlega og styðji hana einhver, eins og búist er við, hefst þá klukkustundar umræða og svo atkvæðagreiðsla.

Áhugsamir munu geta fylgst með þingfundinum í spilaranum hér að neðan. Óljóst er nákvæmlega hvenær Gaetz mun stíga í pontu en það verður líklega skömmu eftir klukkan fjögur, þegar þingfundur hefst aftur.

Hvað gerist svo?

McCarthy gæti komist hjá því að verða vellt úr sessi, samþykki meirihluti þingmanna í fulltrúadeildinni að leggja frumvarpið til hliðar. Einnig gæti verið lögð tillaga um að flytja málið í nefnd og þannig tefja atkvæðagreiðsluna.

Gaetz gæti þó reynt aftur og aftur að koma McCarthy frá með því að leggja fram vantrauststillögu gegn honum. Þegar McCarthy tókst að tryggja sér embætti þingforseta gerði hann það með því að gera samkomulag við Gaetz og hina uppreisnarmennina um að breyta reglum þingsins á þann veg að einungis einn þingmaður þarf að leggja fram tillögu um vantraust og þá verður að halda atkvæðagreiðslu um hana.

Fari svo að McCarthy verði vellt úr sessi, eins og stefnir í, verður þingfundi slitið, þar til Repúblikanar ná höndum saman um nýjan þingforseta, eða einhverskonar samkomulag næst milli Repúblikana og Demókrata um að deila völdum.

McCarthy þurfti fimmtán atkvæðagreiðslur til að tryggja sér embættið á sínum tíma og útlit er fyrir að minni samstaða sé í þingflokki Repúblikana en var þá. Því gæti þingið mögulega verið óstarfhæft í einhvern tíma.


Tengdar fréttir

McCarthy enn í gíslingu uppreisnarmanna

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings er enn lömuð vegna uppreisnar hóps fjar-hægri þingmanna Repúblikanaflokksins. Einungis fimm dagar eru í að stöðva þarf rekstur ríkisins, finnist ekki samkomulag um fjárlagafrumvarp.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×