Erlent

Höfð­u var­að við „geð­sjúkr­i hegð­un“ byss­u­manns­ins

Samúel Karl Ólason skrifar
Maðurinn skaut þrjá til bana og kveikti elda áður en hann var handtekinn.
Maðurinn skaut þrjá til bana og kveikti elda áður en hann var handtekinn. EPA/BAS CZERWINSKI

Búið var að vara við árásarmanninum í Rotterdam. Saksóknarar höfðu sent háskólasjúkrahúsi þar sem hann var nemandi viðvörun vegna hegðunar hans. Maðurinn, sem er 32 ára gamall, framdi tvær skotárásir í Hollandi í gær þar sem hann skaut þrjá til bana.

Maðurinn heitir Fouad L en hann skaut 39 ára nágrannakonu og fjórtán ára dóttur hennar til bana. Því næst skaut hann 43 ára kennara við Erasmus háskólasjúkrahúsið til bana. Maðurinn er einnig sagður hafa kveikt í bæði húsi konunnar og sjúkrahúsinu en hann var handtekinn þegar hann reyndi að flýja frá sjúkrahúsinu.

Tilefni árásarinnar liggur ekki fyrir og er til rannsóknar.

Í tölvupósti sem sendur var til stjórnenda skólans voru þeir varaðir við því að Fouad L hefði sýnt „geðsjúka hegðun“ og að hann ætti við áfengisvanda að stríða. Þar að auki höfðu nágrannar hans kvartað yfir því hvernig hann kæmi fram við dýr.

Samkvæmt frétt Reuters er óljóst hvenær bréfið var sent.

Árásarmaðurinn er sagður hafa komist nokkrum sinnum í kast við lögin á undanförnum árum. Árið 2021 var hann sakfelldur fyrir að misþyrma dýrum.

BBC segir að í áðurnefndum tölvupósti sé lagt til að Fouad L ætti mögulega ekki að fá prófgráðu frá háskólasjúkrahúsinu. Hann hafði sjálfur birt póstinn á Internetinu og sagði kennara skólans reyna að grafa undan sér.

Í færslunni sagðist hann hafa verið rekinn vegna þess að hann hefði ekki fengið prófgráðu og að hann ætti við áfengisvanda að stríða.

Fregnir hafa borist af því að konan sem hann myrti hafi kvartað undan honum við lögreglu en það hefur ekki verið staðfest.


Tengdar fréttir

Skot­á­rás í Rotter­dam: Þrír látnir og byssu­maður hand­tekinn

32 ára karlmaður hefur verið handtekinn grunaður um tvær skotárásir í hollensku hafnarborginni Rotterdam í dag. Þrír voru skotnir til bana. 42 ára kennari við Erasmus háskólann og 39 ára kona, nágranni byssumannsins auk fjórtán ára dóttur hennar. Hinn handtekni var nemandi við háskólasjúkrahúsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×