Blikar voru 2-0 yfir í hálfleik eftir mörk frá Viktori Karli Einarssyni og Höskuldi Gunnlaugssyni. Birnir Snær Ingason minnkaði muninn í 2-1 á 86. mínútu en Jason Daði Svanþórsson gulltryggði sigur Breiðabliks þegar hann skoraði þriðja mark liðsins nokkrum mínútum síðar.
Daginn áður hafði Víkingur orðið Íslandsmeistari eftir 2-2 jafntefli KR og Vals á Meistaravöllum. Valsmenn komust tvisvar yfir í leiknum með mörkum Orra Hrafns Kjartanssonar og Patricks Pedersen en Benóný Breki Andrésson jafnaði í tvígang fyrir KR-inga.
Eggert Aron Guðmundsson skoraði tvö mörk og Emil Atlason eitt þegar Stjarnan vann mikilvægan sigur á FH, 1-3, í baráttunni um Evrópusæti. Gyrðir Hrafn Guðbrandsson gerði mark FH-inga sem misstu Stjörnumenn upp fyrir sig eftir tapið.
Í úrslitakeppni neðri hlutans gerðu ÍBV og Fram 2-2 jafntefli í miklum fallslag í Eyjum. Frammarar náðu forystunni með marki Tiagos Fernandes en tvö mörk frá Sverri Páli Hjaltested komu Eyjamönnum í góða stöðu. Þengill Orrason jafnaði hins vegar fyrir Fram undir lokin með sínu fyrsta marki í efstu deild.
Keflavík vann sinn fyrsta sigur síðan í 1. umferð, á annan í páskum, þegar liðið lagði HK að velli suður með sjó, 2-1. Nacho Heras og Sami Kamel skoruðu mörk Keflvíkinga en Marciano Aziz gerði mark HK-inga.
Þá sigraði KA Fylki í Árbænum, 2-4. Harley Willard skoraði tvö mörk fyrir KA-menn og Hallgrímur Mar Steingrímsson og Sveinn Margeir Hauksson sitt markið hvor. Pétur Bjarnason og Þóroddur Víkingsson skoruðu fyrir Fylkismenn.
Öll mörkin úr 24. umferðinni má sjá hér fyrir ofan.