Erlent

Lego gefst upp á að nota endur­nýtan­legar plast­flöskur í kubbana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Forsvarsmenn Lego hyggjast enn freista þess að gera kubbana umhverfisvænni.
Forsvarsmenn Lego hyggjast enn freista þess að gera kubbana umhverfisvænni. Getty/Joe Raedle

Leikfangaframleiðandinn Lego hefur fallið frá hugmyndum um að framleiða kubba úr endurnýttum plastflöskum í stað efna úr jarðefnaeldsneytum. Fulltrúar fyrirtækisins segja að breytingin hefði leitt til meiri losunar á „líftíma“ plastkubbanna.

Hið danska Lego framleiðir milljarða kubba á ári hverju og í árið 2021 var hafin vinna við að kanna möguleikann á því að nota endurnýtanlegar plastflöskur í kubbana í stað svokallaðs ABS-plasts. ABS er notað í um 80 prósent allra Lego-kubba en til að framleiða eitt kíló af plasti þarf tvö kíló af olíu.

„Þetta er eins og að reyna að smíða hjól úr við í stað stáls,“ segir Tim Brooks, yfirmaður sjálfbærni hjá Lego. Notkun endurnýtta plastefnisins hefði kallað á að fleiri efnum væri bætt við til að láta það endast og að flóknara framleiðsluferli hefði kallað á aukna orkunotkun.

Yfirhalning framleiðslunnar hefði að lokum skilað sér í aukinni losun.

Brooks segir niðurstöðuna hafa valdið vonbrigðum en Niels Christiansen, framkvæmdastjóri Lego, sagði í samtali við Financial Times að hið 150 manna rannsóknarteymi fyrirtækisins hefði prófað hundruð efna án þess að finna „töfralausn“ til að stuðla að aukinni sjálfbærni.

Í framhaldinu hyggst Lego freista þess að breyta plast-uppskriftinni þannig að hægt verði að nota meira af lífrænum og endurnýtanlegum efnum í kubbana. Þá verður fjárframlag til sjálfbærniverkefna þrefaldað í allt að þrjá milljarða dala á ári fyrir árið 2025, án þess að kostnaðinum verði velt yfir á neytendur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.