Umfjöllun og viðtöl: Breiða­blik 0-2 FH | Aftur unnu FH-ingar tveggja marka sigur

Dagur Lárusson skrifar
FH-ingar fagna.
FH-ingar fagna. Vísir/Hulda Margrét

FH hafði betur gegn Breiðablik aðra umferðina í röð í Bestu deild karla í kvöld.

Þetta var fyrsti leikur liðanna í úrslitakeppninni í efri hluta Bestu deildar karla en þessi lið mættust í síðustu umferð Bestu deildarinnar fyrir tveimur vikum en þá höfðu FH-ingar betur 0-2.

Breiðablik var sterkari aðilinn til að byrja með og átti Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, algjört dauðafæri strax í byrjun leiks þar sem hann lék skemmtilega á varnarmann FH og var einn gegn Daða í markinu en hann lét hann verja frá sér.

Eftir því sem leið á náðu gestirnir að vinna sig inn í leikinn og skapa sér færi og Kjartan Henry og Ólafur Guðmundsson fengu báðir góð færi en náði ekki að nýta þau.

Stærsta atvik fyrri hálfleiksins átti sér síðan stað á 33.mínútu en þá lentu Kjartan Kári Halldórsson og Anton Ari Einarsson í samstuði sem endaði með því að Kjartan Kári lá óvígur eftir á vellinum og þarfnaðist aðstoðar. Hlé var gert á leiknum í dágóðan tíma á meðan það var hlúið að Kjartani sem endaði síðan með því að yfirgefa völlinn í sjúkrabíl.

Uppbótartími fyrri hálfleiksins var því mjög langur eða um tólf mínútur og voru það gestirnir sem náðu að nýta sér það. Á sjöundu mínútu uppbótartímans fiskaði Kjartan Henry aukaspyrnu sem var tekin stutt á Harald Einar sem gaf boltann inn á teig þar sem Viktor Örn reyndi að koma boltanum í burtu en kom honum þó aðeins fyrir fætur Davíðs Snærs sem þakkaði fyrir sig og skoraði framhjá Antoni Ara í markinu. Staðan orðin 0-1 og þannig var hún í hálfleik.

Blikar settu enn meiri kraft í sóknarleikinn í seinni hálfleiknum og til að byrja með leit út fyrir að jöfnunarmarkið væri skammt undan. Það var þó ekki raunin. FH-ingar fengu einnig sín færi, aðallega úr skyndisóknum, en eitt af þeim færum kom á 74.mínútu þegar Ástbjörn vann boltann af Höskuldi Gunnlaugssyni hátt uppi á vellinum. Ástbjörn kom boltanum á Vuk Óskar sem fór beint inn á teig og þrumaði boltanum í netið og kom FH í 2-0 forystu.

Blikar reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn en það gekk ekkert upp hjá þeim og því voru lokatölur leiksins 0-2.

Af hverju vann FH?

FH-ingar vörðust virkilega vel í leiknum og fengu mikið af færum úr föstum leikatriðum og skyndisóknum sem þeir náðu að nýta sér.

Hverjir stóðu uppúr?

Davíð Snær var frábær í liði FH. Yfirleitt þegar eitthvað gerðist í sóknarleik FH-inga þá kom það í gegnum Davíð sem skoraði einnig fyrra markið.

Hvað fór illa?

Óskar Hrafn talaði um skort á baráttu og vilja sem hefur einkennt Blika síðustu árin og það er rétt hjá Óskari. Blikar hafa oft á tíðum gert ótrúlega hluti í lokakafla leikja með trú og baráttu en það var ekki raunin í kvöld.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur FH er gegn Stjörnunni á Kaplakrikavelli næstu helgi á mean Blikar taka á móti Víkingum á mánudaginn eftir viku.

Heimir Guðjónsson: Við vorum virkilega flottir aftur

Heimir í leiknum í kvöldVÍSIR/ HULDA MARGRÉT

„Nei ég myndi nú ekki segja að allt hafi gengið upp í kvöld, en þetta var mjög góð frammistaða,“ byrjaði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, að segja í viðtali eftir leik.

„Blikar voru mikið betri í þessum leik heldur en í leiknum fyrir tveimur vikum. Þeir breyttu aðeins til og það tók okkur smá tíma að komast inn í leikinn. En annars fannst mér við vera virkilega flottur í þessum leik sem og í síðasta leik,“ hélt Heimir áfram að segja.

Heimir talaði aðeins ítarlegra um það hvað liðið hans gerði vel.

„Við náðum að halda boltanum vel innan liðsins sem er mikilvægt gegn Blikum sem eru mjög gott pressulið. Við sýndum hugrekki og baráttu og það var lykilinn að þessu.“

Heimir talaði síðan aðeins um Kjartan Kára sem yfirgaf völlinn í sjúkrabíl.

„Já ég var aðeins að spurjast fyrir um hann inn í klefa og það er jákvæðar fréttir að hann finnur fyrir öllum líkamanum þrátt fyrir sársauka í svæðinu við hálsinn. Það fer auðvitað alltaf um mann þegar svona gerist og það var erfitt að missa hann úr leiknum þar sem hann var búinn að spila vel,“ endaði Heimir Guðjónsson á að segja.

Óskar Hrafn Þorvaldsson: Þurfum að setja okkur ný markmið

Óskar í leiknum í kvöldVÍSIR / HULDA MARGRÉT

„Ég er auðvitað svekktur, og þá aðallega svekktur með það að hafa ekki nýtt yfirburðina sem við vorum með í byrjun leiks,“ byrjaði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, að segja eftir leik.

„Að mörgu leyti fannst mér þessi leikur vera framhald af leiknum fyrir tveimur vikum þó svo að við höfum átt ágæta kafla. Mér finnst ennþá vanta ákveðið hungur og ákveðna ákefð í liðið sem hefur einkennt Blika síðustu árin,“ hélt Óskar áfram að segja.

Óskar talaði áskorunina við það að þurfa að setja sér ný markmið nú þegar liðið hefur náð stærsta markmiðinu.

„Þetta er oft svona að hungrið hverfur þegar þú ert búinn að horfa á einhvern hlut, eitthvað stórt markmið í svona langan tíma og síðan þegar þú ert búinn að ná því að þá breytast hlutirnir.“

„En þetta er áskorunin núna. Við þurfum að setjast niður saman og setja okkur ný markmið og halda áfram,“ endaði Óskar Hrafn á að segja.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.