Umfjöllun og viðtöl: Valur - FH 3-1 | Valur aftur á sigurbraut

Andri Már Eggertsson skrifar
378859249_10159149443962447_920552676218124634_n
vísir/anton

Valskonur komust aftur á sigurbraut eftir tap í síðasta leik gegn Stjörnunni. Staðan var jöfn í hálfleik en tvær kollspyrnur frá Örnu Sif og Laura Frank gerði útslagið í seinni hálfleik. 

Gestirnir úr Hafnarfirði byrjuðu betur og eftir tæplega þrjár mínútur fékk Snædís María Jörundsdóttir gott færi til þess að koma FH yfir. Mackenzie Marie George átti sprett upp hægri kantinn lagði boltann fyrir á Snædísi sem tók skot í fyrsta en boltinn í hliðar netið.

Eftir því sem leið á fyrri hálfleik datt leikurinn niður og bæði lið sköpuðu fá færi. Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir var nálægt því að skora þegar hún skaut í þverslána.

Það dró til tíðinda á 31. mínútu þegar að Amanda Jacobsen Andradóttir kom Val yfir. Málfríður Anna átti langa sendingu fram inn fyrir vörn FH þar sem Amanda komst ein í gegn og kláraði færið með þrumuskoti.

Tíu mínútum eftir mark Amöndu jöfnuðu gestirnir. Eftir mikinn darraðardans átti Hildigunnur skot í varnarmann og þaðan datt boltinn beint fyrir Snædísi Maríu sem skoraði í autt markið þar sem Fanney Inga Birkisdóttir, markmaður Vals, hafði skutlað sér.

Staðan í hálfleik var 1-1.

Valskonur byrjuðu síðari hálfleik betur og Amanda fékk gott færi til þess að koma Val yfir. Amanda fékk boltann hægra megin í teignum þar sem hún náði föstu skoti en Aldís Guðlaugsdóttir, markmaður FH, varði frábærlega frá henni.

Þegar tuttugu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik kom Arna Sif Ásgrímsdóttir Val yfir. Valur tók aukaspyrnu stutt á Ásdísi Karen sem var ekki undir neinni pressu þegar hún átti frábæra sendingu beint á Örnu sem stangaði boltann í markið.

Laura Frank bætti síðan við þriðja marki Vals á 90. mínútu þegar hún skallaði hornspyrnu Amöndu í markið.

Fleiri urðu mörkin ekki og Valur vann 3-1 sigur.

Af hverju vann Valur?

Valur gerði vel í að skora þrjú mörk í mjög lokuðum leik framan af. Eftir annað mark Vals spiluðu heimakonur mjög vel, sköpuðu fullt af færum og voru þéttar varnarlega sem FH var í vandræðum með.

Hverjar stóðu upp úr?

Amanda Jacobsen Andradóttir spilaði vel á kantinum í dag. Amanda skoraði laglegt mark í fyrri hálfleik. Valur fékk fá færi í fyrri hálfleik og það var því kærkomið fyrir heimakonur að brjóta ísinn. Amanda lagði síðan upp þriðja mark Vals sem innsiglaði sigurinn.

Arna Sif Ásgrímsdóttir spilaði vel í vörn Vals í dag. Arna skoraði annað mark Vals með laglegum skalla. 

Hvað gekk illa?

Varnarleikur FH var oft ekki góður. FH fékk á sig tvö mörk úr föstum leikatriðum og annað mark Vals var ansi klaufalegt þar sem Ásdís Karen var ekki undir neinni pressu þegar hún gaf boltann fyrir markið.

Hvað gerist næst?

Laugardaginn 30. september mætast Þróttur og Valur á Avis-vellinum klukkan 14:00. Á sama tíma mætast Breiðablik og FH á Kópavogsvelli.

Guðni: Einstaklings gæði kom Val yfir

Guðni var svekktur eftir tap dagsinsVísir/Hulda Margrét

Guðni Eiríksson, þjálfari FH, var svekktur eftir 3-1 tap gegn Val.

„Einstaklings gæði skildi liðin af. Valur hefur leikmenn með öflug einstaklings gæði og fyrsta markið þeirra var þannig. Síðan voru þær sterkari en við í loftinu og skoruðu tvö skallamörk,“ sagði Guðni Eiríksson eftir leik.

Guðna fannst fyrsta mark Vals vera gegn gangi leiksins þar sem FH hafði verið að spila betur en Valur. 

„Þetta mark var gegn gangi leiksins og ég segi það aftur einstaklings gæði kom Val yfir. Mér fannst við spila vel í fyrri hálfleik.“

Þrátt fyrir að Valur hafi verið betri aðilinn í síðari hálfleik var Guðni ekki ósáttur með framlag FH-inga.

„Ég gat ekki kvartað yfir vinnuframlagi leikmanna. Að einhverju leyti má segja að vonin hafi gefið sig.“

„Í öðru markinu sem við fengum á okkur fóru tvær í varnarvegg en það hefði alveg verið nóg að hafa eina þar og hin gæti passað Ásdísi,“ sagði Guðni Eiríksson að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira