Íslenski boltinn

Skoraði sigurmarkið á Pæjumótinu í fyrra en lék í Bestu deildinni í gær

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bríet Fjóla Bjarnadóttir á Pæjumótinu í fyrra.
Bríet Fjóla Bjarnadóttir á Pæjumótinu í fyrra. stöð 2 sport

Hin þrettán ára Bríet Fjóla Bjarnadóttir lék sinn fyrsta leik í Bestu deild kvenna þegar Þór/KA sigraði Breiðablik, 3-2, í gær.

Bríet fæddist í janúar 2010 og náði því að spila deildarleik með meistaraflokki áður en hún fermdist.

Bríet kom inn á sem varamaður fyrir Agnesi Birtu Stefánsdóttur á 89. mínútu. Aðeins mínútu síðar skoraði Una Móeiður Hlynsdóttir sigurmark Þórs/KA. Hún tryggði liðinu ekki einungis sigur heldur Val einnig Íslandsmeistaratitilinn.

Bríet er í 4. flokki KA en hefur líka spilað með 3. flokki Þórs/KA og 2. flokki Þórs/KA/Völsungs í sumar að því er fram kemur á Akureyri.net. Þar kemur einnig fram að leikurinn í gær hafi verið minningarleikur um föðurafa hennar, Guðmund Sigurbjörnsson, fyrrverandi formann Þórs. Hann lést 1998, aðeins 49 ára.

Dyggir aðdáendur sumarmótanna muna kannski eftir Bríeti úr þættinum um Pæjumótið í fyrra. Þar skoraði hún í Pressuliðsleiknum og glæsilegt sigurmark í sigri KA og Breiðabliki í úrslitaleik mótsins.

Klippa: Bríet Fjóla á Pæjumótinu

Markið og fleiri tilþrif Bríetar á Pæjumótinu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×