Innlent

Hvalur 8 varð fyrri til

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Mótmæli vegna fyrirhugaðra hvalveiða í liðinni viku vöktu töluverða athygli.
Mótmæli vegna fyrirhugaðra hvalveiða í liðinni viku vöktu töluverða athygli. Vísir/Vilhelm

Áhöfnin á Hval 9 hyggst freista þess að veiða aðra langreyði áður en haldið verður til hafnar í Hvalfirði. Tvær langreyðar veiddust í dag og voru það fyrstu hvalirnir sem veiddir hafa verið á yfirstandandi vertíð.

Kristján Már Unnarsson fréttamaður Stöðvar 2 var í beinni útsendingu úr Hvalfirði í kvöldfréttum.

Áhafnir Hvals 8 og Hvals 9 lögðu út á miðin í gær og veiddist fyrsti hvalurinn laust fyrir hádegi. Áhöfnin á Hval 8 varð fyrri til en áhöfnin á Hval 9 krækti í langreyði, hval númer tvö, klukkan 14:30 í dag. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hyggst áhöfnin síðarnefnda freista þess að krækja í enn aðra langreyði áður en haldið verður í land og gætu því þrír hvalir endað uppi í hvalstöð á morgun.

Bræla er hins vegar í kortunum og óvíst er hversu lengi hægt verður að halda veiðunum áfram. Talið er að langreyðar haldi sig við strendur Íslands fram í október en myrkur og tíðarfar skiptir eðli málsins samkvæmt sköpum við veiðarnar.


Tengdar fréttir

Segja við­brögð lög­reglunnar við mót­mælunum ó­á­sættan­leg

Konurnar sem hlekkjuðu sig fastar í möstrum tveggja hvalveiðiskipa í einn og hálfan sólarhring segja aðgerðir lögreglunnar í upphafi mótmælanna hneykslanlegar. Lögreglan hér hafi sýnt ofbeldisfyllri hegðun en önnur þeirra hafi lent í hjá írönskum kollegum þeirra. Þær telja að mótmælin hafi borið árangur.

„Þetta var það minnsta sem ég gat gert“

Nic, aðgerðarsinninn sem var handtekin á mótmælunum við hvalveiðiskipin Hval 8 og Hval 9 í dag segist hafa verið að senda Anahitu, öðrum mótmælandanum, skilaboð þegar hún var handtekin eftir að hafa farið inn fyrir merktan lögregluborða. Anahita hafi verið í uppnámi og hún ætlað að hughreysta hana. 

Sjáðu konurnar koma niður eftir 33 tíma dvöl

Þær Anahita Babei og Elissa Bijou komu niður úr möstrum hval­veiði­skipanna Hvals 8 og Hvals 9 á þriðja tímanum í dag. Þar höfðu þær verið í 33 tíma til að mót­mæla fyrir­huguðum hval­veiðum Hvals en þær voru fluttar á brott í lög­reglu­bíl.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×