Erlent

Var ný­mættur til Hong Kong þegar felli­bylurinn skall á

Bjarki Sigurðsson skrifar
Óttar Ómarsson er staddur í Hong Kong sem skiptinemi.
Óttar Ómarsson er staddur í Hong Kong sem skiptinemi.

Einn er látinn eftir að fellibylurinn Saola gekk yfir suðausturströnd Kína. Íslenskur skiptinemi í Hong Kong segist aldrei hafa séð annað eins veður og síðastliðna nótt. Allt sem ekki var fest niður með keðju hafi flogið af stað, meira að segja tré.

Fellibylurinn Saola gekk yfir suðausturströnd Kína í gær og síðastliðna nótt. Gefin var út svokölluð T10 viðvörun vegna hans en um er að ræða hæstu viðvörun kínverskra yfirvalda vegna fellibylja.

Óttar Ómarsson er skiptinemi við Polytechnic-háskólann í sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong sem er á suðausturströndinni. Hann kom til borgarinnar á mánudaginn og því ekki búinn með fyrstu vikuna þegar bylurinn skall á.

Klippa: Veðurofsi

„Í gærkvöldi þá fór maður virkilega að sjá tré fljúga út um allt, enginn var á vappi. Eina sem maður sá voru sjúkrabílar að fara á milli. Allt sem var ekki fest með keðju eða reipi, það var bara á flugi um bæinn allan. Sérstaklega tré,“ segir Óttar. 

Allt það besta í búðinni klárað

Hann er búsettur á sextándu hæð í blokk og fann vel fyrir því þegar vindurinn skall á húsinu. Sem betur fer brotnaði þó enginn gluggi en nemendur skólans höfðu verið varaðir við því.

Svona leit borgin út í morgun eftir fellibylinn.Óttar Ómarsson

„Svo var okkur sagt að fara að kaupa í matinn daginn áður, svipað eins og þetta var í Covid. Þá forum við á fimmtudagskvöld og það var alveg pakkað í búðunum. Tvö hundruð manna raðir og allir ávextirnir búnir. Það var reyndar nóg af klósettpappír. En allir núðlupakkarnir voru búnir, góðu „dumplings-arnir“ og bananarnir voru búnir. Ég var mjög leiður yfir því. Svo hamstrar maður í rauninni og gerir það sem manni var sagt,“ segir Óttar. 

Einhver tré höfðu verið rifin upp með rótum.Óttar Ómarsson

Byggingin hreyfðist

Honum tókst að sofa ágætlega í nótt þrátt fyrir að hafa vaknað nokkrum sinnum.

„Maður hugsaði alveg, vó getur byggingin ekki staðist. Hún var smá að hreyfast. En það gerðist ekkert. Ég vaknaði einu sinni eða tvisvar. Maður dottaði aðeins en þetta var verst um miðja nótt,“ segir Óttar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×