Erlent

Íbúar Hong Kong búa sig undir það versta

Samúel Karl Ólason skrifar
Áður en það byrjaði að dimma í Hong Kong voru götur þessarar einnar þéttbýlustu borgar heim næstum tómar.
Áður en það byrjaði að dimma í Hong Kong voru götur þessarar einnar þéttbýlustu borgar heim næstum tómar. AP/Daniel Ceng

Talið er að fellibylurinn Saola geti valdið miklum skaða á Hong Kong þegar hann fer þar yfir í dag. Íbúum hefur verið gert að búa sig undir það versta.

Óttast er að sjór muni flæða inn á land en spár segja að sjávarstaða verði minnst fimm metrum hærri en venjulega. Þá er búist við hvössum vindi, um 58 metrum á sekúndu, og hviðum sem ná í allt að áttatíu metra á sekúndu.

Samkvæmt frétt South China Morning Post var fyrirtækjum, skólum og stofnunum í borginni lokað í morgun og fólki gert að halda sig heima. Þá hefur öllum flugferðum til og frá eyjunni verið frestað og það sama á við lestaferðir.

Fregnir hafa borist af lögnum biðröðum við verslanir þar sem hillur eru sagðar hafa verið tæmdar en einnig munu hafa myndast biðraðir við bílastæðahús, þar sem íbúar reyndu að koma farartækjum sínum í öruggt skjól áður en óveðrið skall á.

Veðurstofa Hong Kong hefur gefið út svokallað T9 viðvörun, sem er sú næst alvarlegasta hjá stofnuninni. AP fréttaveitan hefur eftir yfirmanni stofnunarinnar að til greina komi að hækka aðvörunarstigið í T10, haldi fellibylurinn áfram að styrkjast.

Íbúar söfnuðu nauðsynjum í aðdraganda þess að fellibylurinn fer framhjá Hong Kong.AP/Daniel Ceng

Talið er að ástandið verði hvað verst um miðnætti að staðartíma, sem er klukkan fjögur að íslenskum tíma. Þá á auga Saoloa að vera í um fjörutíu kílómetra fjarlægð frá Hong Kong.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×