Arsenal lagði United með tveimur mörkum í uppbótartíma

Siggeir Ævarsson skrifar
Declan Rice í baráttunni í dag
Declan Rice í baráttunni í dag Vísir/EPA

Fornir fjendur áttust við í fjórðu um­ferð ensku úr­vals­deildarinnar í dag þegar að Arsenal tók á móti Manchester United á Emira­tes leik­vanginum. Allt stefndi í jafntefli þar til Declan Rice opnaði markareikning sinn í uppbótartíma.

United komust yfir um miðjan fyrri hálfleik þegar Marcus Rashford skoraði glæsilegt mark. Arsenal voru þó aðeins nokkrar sekúndur að jafna leikinn með marki frá Martin Ödegard.

United voru töluvert líflegri í seinni hálfleik og náðu að skora mark sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Hvorugu liðinu tókst að skora löglegt mark í venjulegum leiktíma seinni hálfleiks og allt leit út fyrir að jafntefli yrði niðurstaðan.

Þegar 96 mínútur voru komnar á klukkuna skoraði Declan Rice gott mark úr stuttu færi í teignum en setja má spurningamerki við varnarleik United í aðdraganda marksins þar sem Rice fékk nóg pláss og tíma í teignum. 

United voru þá komnir með varamenn í flestar stöður í vörninni en sjúkralistinn heldur bara áfram að lengjast. Martinez og Lindelöf fóru báðir meiddir af velli og þeir félagar Johnny Evans og Harry Maguire fengu mínútur í dag.

Gabriel Jesus innsiglaði svo sigur heimamanna með marki á 102. mínútu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira