Erlent

Fraus aftur í miðri setningu

Máni Snær Þorláksson skrifar
Mitch McConnell fraus aftur í skamma stund á blaðamannafundi í dag.
Mitch McConnell fraus aftur í skamma stund á blaðamannafundi í dag. EPA/SHAWN THEW

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeild bandaríska þingsins, fraus í miðri setningu á blaðamannafundi í Kentucky ríki í dag. Um mánuður er liðinn síðan McConnell gerði slíkt hið sama á öðrum blaðamannafundi.

McConnell, sem er 81 árs gamall, var búinn að tala í um tuttugu mínútur á blaðamannafundinum í dag þegar opnað var fyrir spurningar frá fjölmiðlum. McConnell var þá spurður hvort hann ætli sér að bjóða sig aftur fram sem öldungardeildarþingmaður árið 2026. Fyrst sagðist McConnell eiga erfitt með að heyra spurninguna. 

Spurningin var borin fram aftur og í kjölfarið fraus McConnell í nokkrar sekúndur. Þá var hann spurður hvort hann hefði heyrt spurninguna og svaraði hann því játandi. Ekkert svar kom þó við spurningunni og í kjölfarið var McConnell spurður hvort hann vildi yfirgefa svæðið.

McConnell vildi þó ekki gera það strax en tveimur spurningum síðar yfirgaf hann fundinn. Talsmaður McConnell segir í samtali við NBC að hann hafi fengið svima á fundinum en að honum „líði vel“ þrátt fyrir það. Hann ætli þó að ræða við lækni áður en hann kemur fram næst.

Það vakti töluverða athygli fyrir mánuði síðan þegar McConnell fraus í miðri setningu. McConnell var þá leiddur út af blaðamannafundinum en snéri svo aftur skömmu síðar og sagðist vera í lagi.

Daginn eftir sagðist McConnell hafa heilsu til að sinna starfi sínu. Hann hafi fengið svima og því stigið til hliðar í smá stund. Þá vildi hann ekki segja nákvæmlega hvað hefði komið fyrir eða hvort hann hafi hitt lækni eftir atvikið.

visir.is/g/20232444319d/segist-vid-goda-heilsu?fbclid=IwAR0cqLknCoSBnD5vBzGWHb9OHmH6BoSnksdWNa7EZ_57rDNzjhaa47MDLfc


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×