Íslenski boltinn

„Hélt ég myndi ekki lifa þann dag að sjá okkur vinna titla“

Aron Guðmundsson skrifar
Víkingsmæðgurnar Elíza Gígja Ómarsdóttir og Hjördís Guðmundsdótttir mættu í settið til Helenu Ólafsdóttur.
Víkingsmæðgurnar Elíza Gígja Ómarsdóttir og Hjördís Guðmundsdótttir mættu í settið til Helenu Ólafsdóttur. Vísir/Skjáskot

Nýjasti þáttur Bestu markanna, þar sem hitað er upp fyrir úr­slita­keppnina í Bestu deild kvenna, er kominn í loftið en í þættinum mættu þær Víkings-mæðgur, Elíza­ Gígja Ómars­dóttir og Hjör­dís Guð­munds­dóttir sem gestir.

Hjör­dís er fyrrum leik­maður Víkings og nú­verandi sam­skipta­stjóri Al­manna­varna á meðan að Elíza­ Gígja dóttir hennar er hluti af nú­verandi liði Víkings Reykja­víkur í fót­bolta sem er ríkjandi bikar­meistari og tryggði sér í gær sigur í Lengju­deildinni og um leið sæti í Bestu deildinni að ári.

Víkingar tryggðu sér sæti í efstu deild með sigri gegn Fylki í gær þar sem að á­horf­enda­met var slegið. Elíza hefur þurft að horfa á liðs­fé­laga sína vinna glæsta sigra á meðan hún er sjálf föst utan vallar..

Klippa: Bestu mörkin: Víkingsmæðgur kíktu í heimsókn

„Ég slít kross­band í maí í fyrra og því skrítið fyrir mig að vera á hliðar­línunni þegar að þetta er allt að gerast en bara öðru­vísi gaman. Ég hef ekkert spilað í sumar en vonandi fæ ég ein­hverjar mínútur í þessum síðustu tveimur leikjum,“ segir Elíza­ og segir endur­hæfinguna eftir þessi erfiðu meiðsli ganga vel.

Hún viður­kennir að það reyni vel á að geta ekki tekið þátt í leikjum liðsins þegar að svona vel gengur.

„Eftir undan­úr­slitin í bikarnum þurfti ég bara að fara í kælingu því ég trúði ekki að þetta væri að gerast og ég horfði niður og sá mig í striga­skóm en ekki takka­skóm.

Svo kom úr­slita­leikurinn og ég bara í liðs­stjóra hlut­verkinu að bera töskur og svona, það var mjög absúrd. Ég hef verið í þessu fé­lagi síðan árið 2007 eða eitt­hvað og hélt ég myndi ekki lifa þann dag að sjá okkur vinna titla. Það virtist aldrei vera raun­hæfur mögu­leiki. Svo er þetta að gerast og maður er í striga­skónum. Þetta er blaut tuska í and­litið en ég kem sterkari til baka.“

Það var fagnað vel og innilega í Víkinni í gær þegar að Bestu deildar sætið var í höfnVísir/Anton Brink

Þáttinn má sjá í heild sinni hér fyrir ofan og þar er farið nánar í ævin­týri Víkings­kvenna í sumar sem og fyrri tíð þegar að Hjör­dis var sem leik­maður hjá Víkingi.

Þá var spáð í spilin fyrir komandi úr­slita­keppni Bestu deildarinnar sem hefst á morgun með tveimur leikjum í efri hlutanum.

Úrslitakeppni Bestu deildar kvenna verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×