Íslenski boltinn

„Hef ekki á­hyggjur að þær haldi sér ekki uppi“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tindastóll hefur unnið nokkra góða sigra í sumar.
Tindastóll hefur unnið nokkra góða sigra í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Spekingar Bestu markanna hafa ekki miklar áhyggjur af stöðu Tindastóls í Bestu deild kvenna í knattspyrnu en nýliðarnir eru sem stendur í 7. sæti með 19 stig, tveimur fyrir ofan fallsæti.

Farið var yfir frammistöðu Tindastóls í síðasta þætti Bestu markanna sem og annarra liða þar sem hefðbundinni deildarkeppni er nú lokið. Nú tekur við úrslitakeppni þar sem efstu sex lið deildarinnar mætast innbyrðis og neðstu fjögur gera slíkt hið sama.

„Þær væru til í að hafa enga úrslitakeppni, þá væru þær eflaust búnar að ná sínum væntingum sem er að halda sæti sínu í deildinni. Þær eru búnar að vera flottar í sumar, fá nýjan markmann sem var smá spurningamerki,“ sagði Sonný Lára Þráinsdóttir um lið Tindastóls og hélt áfram.

„Murielle (Tiernan) er búin að vera stórkostleg. Reynslunni ríkari eftir að hafa spilað í Bestu deildinni áður, var mikið meidd þá. Hún er búin að sleppa við meiðsli í sumar og ekki misst mikið úr, búin að spila næstum alla leiki. Liðið líka, það eru margir leikmenn að spila næstum alla leiki, sem skiptir máli.“

Donni hefur haft nokkrar ástæður til að brosa í sumar.Vísir/Hulda Margrét

„Það er stöðugleiki og svo veit Donni (Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari) alveg hvað hann er að gera sem þjálfari þessa liðs, vel skipulagðar og ég hef fulla trú á þeim í þessari úrslitakeppni. Hef ekki áhyggjur að þær haldi sér ekki uppi.“

„Tindastóll er búið að ná í góð úrslit í síðustu leikjum, þær fara fullar sjálfstrausts inn í þessa þrjá leiki,“ sagði Sonný Lára að endingu. Leikirnir sem um er ræðir eru gegn Keflavík (heima), Selfossi (úti) og ÍBV (heima).

Klippa: Bestu Mörkin: Umræða um Tindastól



Fleiri fréttir

Sjá meira


×