Um­fjöllun og við­tal: KR - Fylkir 2-0 | KR upp að hlið FH og Stjörnunnar

Kári Mímisson skrifar
Vísir/Hulda Margrét

KR tók á móti Fylki á Meistaravöllum í 21. umferð Bestu deildar karla nú í dag þar sem KR vann góðan 2-0 sigur eftir að hafa spilað nær allan seinni hálfleikinn einum færri.

KR-ingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og stýrðu leiknum að mestu og fengu þó nokkur tækifæri til að komast yfir. Ólafur Kristófer Helgason, markvörður Fylkis, hafði í nógu að snúast í upphafi leiksins sem og varnarmenn Fylkis.

Heimamenn urðu þó fyrir áfalli þegar rúmlega tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum þegar Kristján Flóki Finnbogason þurfti að fara meiddur af velli eftir að hafa fengið eitthvað tak í lærið. Luke Rae kom inn í hans stað og byrjaði á því að taka góðan sprett upp vinstri vænginn og gefa boltann fyrir þar sem Stefán Árni Geirsson var mættur en Ólafur Kristófer varði skalla hans.

En Fylkismenn fengu líka sín færi og komust næst því að skora þegar Sveinn Gísli sendi langan bolta yfir allan völlinn sem Ólafur Karl Finsen var nálægt því að skalla í netið. Aron Snær Friðriksson var kominn langt út úr markinu og mátti þakka fyrir það að boltinn rúllaði fram hjá.

En KR tókst loksins að skora og það gerði Kristinn Jónsson á lokamínútu fyrri hálfleiks. Kristinn tók þá aukaspyrnu langt fyrir utan sem fór yfir allt og alla, fram hjá Ólafi Kristófer í markinu og þaðan í netið. KR fór því með 1-0 forystu í hálfleikinn.

Síðari hálfleikur byrjaði með miklum látum. Það voru ekki liðnar nema 23 sekúndur þegar Aron Snær Friðriksson, markvörður KR var búinn að fá rautt spjald eftir að handleika boltann fyrir utan vítateiginn. Afskaplega klaufalega gert og KR-ingar því manni færri allan seinni hálfleikinn.

Fylkir sótti stíft að KR eftir þetta en án þessi þó að ná að skapa sér nein alvöru færi. KR-ingar vörðust vel með þá Lúkas Magna Magnason og Jakob Franz Pálsson í hjarta varnarinnar. Þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum gerði KR breytingu á liðinu sínu og fór í 5-3-1. Við þetta róaðist leikurinn og Fylkismenn áttu í miklu brasi sóknarlega og KR náði að sækja hratt á það nokkrum sinnum. Það var svo á 84. mínútu leiksins sem KR náði þessu dýrmæta marki númer tvö eftir hraða skyndisókn. Kristinn Jónsson vann þá boltann á miðjunni og var fljótur að bruna fram þar sem hann náði að þræða Sigurð Bjart Hallsson í gegn sem lék á Ólaf Kristófer markvörð Fylkis og renndi svo boltanum í autt netið.

Meira markvert gerðist ekki í leiknum og því varð niðurstaðan sú að KR vann afar mikilvægan 2-0 sigur og nánast gulltryggði sig í efri hluti deildarinnar en KA á þó fræðilegan möguleika á að jafna þá að stigum.

Af hverju vann KR?

KR var miklu betra liðið á vellinum í fyrri hálfleik og ná að halda út eftir að liðið varð manni færri.

Hverjir stóðu upp úr?

Kristinn Jónsson var frábær í dag og sérstaklega eftir að hann fór á miðjuna. Mark og stoðsending hjá honum og hann fær því augljóslega nafnbótina maður leiksins. Lúkas Magni kom inn í vörn KR og var virkilega flottur ásamt Jakobi Franz.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Fylkis var ekki góður í kvöld eins og hann hefur því miður verið eftir að Óskar Borgþórsson fór frá félaginu. Ég hugsa að Rúnar Páll og hans menn séu orðnir ansi órólegir með hversu lítið af færum liðið er að skapa sér.

Hvað gerist næst?

Það er aðeins ein umferð eftir áður en deildinni er skipt upp. Fyrir leikinn var ljóst að Fylkir yrði í neðri helmingnum en KR gæti svo gott sem trygg sig í efri hlutan með sigri. KR-ingar fara til Eyja og Fylkir fær KA í heimsókn. Báðir leikirnir eru á sunnudaginn eftir viku og hefjast klukkan 14:00.

Rúnar Páll: Við einhvern veginn höfðum enga trú á þessu

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis.Vísir/Diego

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, var að vonum óánægður með úrslitin í kvöld þegar hann mætti í viðtal.

„Gríðarlegt svekkelsi með spilamennskuna. Við einhvern veginn höfðum enga trú á þessu. Þetta var bara gæðaleysi í góðar 98 mínútur. Leikurinn byrjar þannig að við erum mjög passívir og KR stjórnaði leiknum fyrstu 15-20 mínúturnar. Svo fannst mér við komast ágætlega inn í þetta þegar Emil kemur framar og við fengum fínar sóknir í seinni hluta fyrri hálfleiks.“ 

„Síðan þegar við endum einum fleiri þá gerist ekki neitt og við sköpum varla færi. Ég er hrikalega óánægður með þetta gæðaleysi í öllu því sem að við gerðum í seinni hálfleik. Við þurfum allavegana að gera betur, laga hugafarið og hafa trú á því að við getum barið inn einhver mörk.“

Framundan eru erfiðir 6 leikir hjá Fylki. Rúnar telur neðri hluta umspilið verði spennandi segir að sína menn þurfi að vera klára fyrir það.

„Það stefnir allt í það. Þetta verður svakalegur neðri hluti og barátta um að halda sæti sínu í þessari deild þar til í loka leik 7. október. Það er bara stríð framundan, við þurfum að vera klárir í það og spila betur en við gerðum hér í kvöld.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira