Erlent

Danir banna brennslu trúar- og helgi­rita

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mótmælendur í Beirút í Líbanon brenna fána Svíþjóðar og Hollands vegna Kóran-brenna í ríkjunum.
Mótmælendur í Beirút í Líbanon brenna fána Svíþjóðar og Hollands vegna Kóran-brenna í ríkjunum. AP/Hassan Ammar

Stjórnvöld í Danmörku hyggjast banna brennur trúar- og helgirita á opinberum stöðum, það er að segja á almannafæri. Ákvörðunin var tekin í kjölfar nokkurra brenna fyrir utan erlend sendiráð nú í sumar.

Frá þessu greindu utanríkisráðherrann Lars Løkke Rasmussen, dómsmálaráðherrann Peter Hummelgaard og efnahagsmálaráðherrann Jakob Ellemann-Jensen á blaðamannafundi í morgun.

Þeir sögðu brennslu trúarrita tilgangslausa lítilsvirðingu og að koma þyrfti í veg fyrir slíka gjörninga.

Hummelgaard sagði að lögin myndu fela í sér bann gegn því að höndla trúarlega mikilvæg rit eða muni með ótilhlýðilegum hætti. Það verður til að mynda ólöglegt að brenna Kóraninn, Biblíuna og Tóruna; trúarrit gyðinga.

Þeir sem brjóta gegn lögunum munu eiga yfir höfði sér sekt eða allt að tveggja ára fangelsi.

Hummelgaard vildi ekki fara nánar út í það hvað myndi flokkast til vanvirðingar á trúarlegum munum en sagði það myndu skýrast í meðförum dómstóla. Hann sagði lögunum ekki beint gegn tjáningarfrelsinu, heldur snérist málið um það hvernig skoðanir væru tjáðar.

Jensen sagði tjáningarfrelsið enn hornstein lýðræðisins í Danmörku.

Rasmussen sagði mikilvæg skilaboð felast í lögunum og benti á að hryðjuverkaógnin í landinu hefði stigmagnast í kjölfar Kóran-brenna. Áður hefur verið greint frá hótunum al-Kaída gegn Dönum og Svíum og auknum viðbúnaði í Svíþjóð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×