Erlent

Trump handtekinn í tugthúsinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump þegar hann lenti í Atlanta í kvöld.
Donald Trump þegar hann lenti í Atlanta í kvöld. AP/Alex Brandon

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur verið formlega handtekinn í Fulton-sýslu í Atlanta í Bandaríkjunum. Þar hefur hann og átján bandamenn hans verið ákærðir vegna tilrauna þeirra til að snúa niðurstöðum forsetakosninganna í ríkinu árið 2020.

Þau voru ákærð á grunni RICO-laganna svokölluðu en þau voru upprunalega sett til að auðvelda yfirvöldum að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Nokkrir af þeim sem eru ákærðir eru sakaðir um að hafa reynt að stela kjörgögnum og eiga við kosningavélar. Willis hefur lagt til að réttarhöldin hefjist í mars.

Trump gaf sig fram í fangelsi Fulton-sýslu í kvöld en lögmenn hans höfðu áður gert samkomulag við saksóknara um að hann myndi greiða tryggingu gegn því að ganga laus fram að réttarhöldum.

Sjá einnig: Gert að greiða tuttugu og sex milljónir króna í tryggingu

Mikill fjöldi stuðningsmanna forsetans hefur beðið fyrir utan fangelsið í dag.

Sjá einnig: Stuðningsmenn Trumps bíða við fangelsið í Fulton-sýslu

Þó þetta sé fjórða ákæran og Trump hafi þurft að gefa sig fram þrisvar áður var þetta í fyrsta sinn sem svokölluðu fangamynd var tekin af honum og verður hún birt opinberlega. Er hann var bókaður í fangelsinu var hann skráður rúm 97 kíló að þyngd og 190 sentímetrar á hæð.

Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs var Trump í um tuttugu mínútur í fangelsinu áður en hann fór aftur á flugvöllinn og flaug á brott.

Fangamyndin af Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.AP/Fógetinn í Fulton-sýslu


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×