Erlent

Segja Prigozhin hafa verið ráðinn af dögum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá minnisvarða um Prigozhin við höfuðstöðvar Wagner Group í Pétursborg.
Frá minnisvarða um Prigozhin við höfuðstöðvar Wagner Group í Pétursborg. AP/Dmitri Lovetsky

Bráðabirgðaniðurstaða leyniþjónustusamfélags Bandaríkjanna er að rússneski auðjöfurinn Yevgeny Prigozhin, sem átti málaliðahópinn Wagner Group, hafi verið ráðinn af dögum. Heimildarmenn fjölmiðla vestanhafs eru þó ekki sammála um hvort að talið sé að einkaflugvél hans hafi verið skotin niður yfir Rússlandi í gær eða hvort sprengju hafi verið komið fyrir um borð í flugvélinni.

Sumir segja það alfarið óljóst, aðrir segja sprengju hafa verið notaða og þá segja aðrir að flugvélin hafi verið skotin niður.

Verið var að fljúga einkaflugvél Prigozhin frá Moskvu til Pétursborgar í gær þegar hún féll til jarðar í minnst tveimur hlutum. Vitni segjast hafa heyrt háværar sprengingar og myndbönd hafa sýnt mögulega flugslóð eldflaugar úr loftvarnarkerfi.

Mikil óvissa ríkir þó um af hverju flugvélin féll til jarðar og er einnig talið að sprengja hafi sprungið um borð. Patrick S. Ryder, talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, sagði í kvöld að Bandaríkjamenn hefðu engar upplýsingar sem bentu til þess að flugvélin hefði verið skotin niður.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur heitið því að dauði Prigozhin verði rannsakaður en varar við því að rannsókn gæti tekið langan tíma. Flugmálayfirvöld í Rússlandi segja að tíu lík hafi fundist í braki flugvélarinnar en ekki hefur formlega verið staðfest að Prigozhin sé einn þeirra. Menn innan Wagner og yfirvalda í Rússlandi hafa þó sagt blaðamönnum að svo sé.

Sjá einnig: Pútin tjáir sig og lofar rann­sókn á dauða Prigoz­hin

Pútín er efstur á lista yfir þá sem gætu hafa banað Prigozhin en eins og frægt er gerði auðjöfurinn skammlífa uppreisn í Rússlandi í sumar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×