Enski boltinn

United hafnaði mettil­boði í Earps

Smári Jökull Jónsson skrifar
Earps lék alla sjö leiki Englands á heimsmeistaramótinu sem lauk á sunnudag.
Earps lék alla sjö leiki Englands á heimsmeistaramótinu sem lauk á sunnudag. Vísir/Getty

Manchester Untied hefur hafnað tilboði í landsliðsmarkvörðinn Mary Earps sem hefði gert hana að dýrasta markverði allra tíma. 

Mary Earps er landsliðsmarkvörður Englands og var valinn besti markvörður heimsmeistaramótsins í Ástralíu og Nýja Sjálandi sem lauk um síðustu helgi. Þá var hún einnig valinn besti markvörður síðasta árs á verðlaunaafhendingu FIFA í febrúar.

Earps gekk til liðs við Manchester United frá Wolfsburg fyrir fjórum árum og hefur leikið hverja einustu mínútu í deildarleikjum United síðan þá. 

Skysports greinir frá því að United hafi í dag hafnað mettilboði í Earps frá ónefndu liði. Ef tilboðinu hefði verið tekið hefði Earps verið dýrasti markvörður allra tíma í kvennaboltanum.

Earps lék alla sjö leiki Englands á heimsmeistaramótinu og varði meðal annars vítaspyrnu frá Jenni Hermoso í úrslitaleik mótsins en þar tapaði England fyrir Spáni. 

Earps á eitt ár eftir af samningi sínum við United og verður forvitnilegt að sjá hvort hún verður ennþá leikmaður félagsins þegar enska úrvalsdeildin fer af stað þann 1. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×