Enski boltinn

Gætu frestað á­­kvörðun varðandi fram­­tíð Greenwood þangað til í september

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mason Greenwood var meðal annars ákærður fyrir líkamsárás og tilraun til nauðgunar.
Mason Greenwood var meðal annars ákærður fyrir líkamsárás og tilraun til nauðgunar. Getty Images/Paul Currie

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur ekki enn tekið ákvörðun varðandi framtíð framherjans Mason Greenwood. Talið er líklegt að félagið gæti tilkynnt ákvörðun sína í landsleikjahléinu í næsta mánuði.

Manchester United hóf tímabilið 2023-24 með naumum 1-0 heimasigri á Úlfunum í lokaleik 1. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar á mánudagskvöld. Liðið var án nokkurra sóknarþenkjandi leikmanna, var Mason Greenwood þar á meðal.

Félagið hefur ekki enn tekið ákvörðun varðandi framtíð framherjans en hinn 21 árs gamli Greenwood hefur ekki spilað fyrir félagið síðan í ársbyrjun 2022. Hann var þá settur til hliðar eftir að kærasta hans á þeim tíma áskaði hann um tilraun til nauðgunar sem og að hún sagði leikmanninn hafa beitt sig bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi.

Málið var á leið fyrir dómstóla en var á endanum látið niður falla eftir að lykilvitni drógu vitnisburð sinn til baka og ekki var lengur raunhæft að Greenwood yrði fundinn sekur. Leikmaðurinn hefur alltaf neitað sök.

Eftir ákæruvaldið í Bretlandi ákvað að fara ekki lengra með málið ákvað Man United að hefja sína eigin rannsókn á því sem gerst hafði. Í frétt The Athletic segir að félagið hafi ætlað að opinbera ákvörðun sína áður en núverandi tímabil hófst. Það var hins vegar ekki gert og fór Greenwood ekki með liðinu til Bandaríkjanna á undirbúningstímabilinu.

Í fréttinni segir jafnframt að félagið vilji útskýra niðurstöðu rannsóknarinnar fyrir þeim sem eiga hvað flest hlutabréf í félaginu. Þá verði ákvörðunin útskýrð fyrir kvennaliði félagsins sem og ráði sem er skipað stuðningsfólki Man Utd.

Vegna þessa telur The Athletic líklegast að ákvörðunin verði gerð opinber í landsleikjahléinu í upphafi næsta mánaðar. Hver hún svo verður mun koma í ljós þegar fram líða stundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×