Erlent

Lætur yfir­hers­höfðingjann fjúka og boðar aukin hernaðar­um­svif

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kim prófar skotvopn í skotvopnaverksmiðju.
Kim prófar skotvopn í skotvopnaverksmiðju. AP/KCNA

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur látið æðsta hershöfðingja landsins fjúka. Varnarmálaráðherra landsins, Ri Yong-gil, hefur tekið við stöðunni.

Það var ríkisfréttastofan KCNA sem sagði frá breytingunum en Kim hefur að auki kallað eftir auknum undirbúningi fyrir stríðsátök; aukinni vopnaframleiðslu og fleiri heræfingum.

Tilkynnt var um skipun Ri í tengslum við fund hermálanefndar landsins og í kjölfar heimsóknar leiðtogans í vopnaframleiðslufyrirtæki, þar sem hann sást meðal annars prófa skotvopn. Notaði hann tækifærið til að boða aukna vopna- og skotfæraframleiðslu.

Þá sagði ríkisfréttastofan Kim hafa rætt um fjölgun heræfinga til að þjálfa hermenn landsins á nýjust vopn og búnað. Tilgangurinn væri að gera heraflann undirbúinn undir að stríð gæti brotist út á hverri stundu.

Efnt verður til mikillar herskrúðgöngu 9. september næstkomandi, til að halda upp á að 75 ár eru liðin frá stofnun alþýðulýðveldisins. Fyrir um tveimur vikum var Kim viðstaddur aðra herskrúðgöngu ásamt fulltrúum frá Kína og Rússlandi þar sem nýjustu vopn landsins voru sýnd.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×