Erlent

Segjast hafa komið í veg fyrir at­lögu að lífi Selenskís

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Mynd af konunni sem á að hafa reynt að ráða Volodímír Selenskí ásamt úkraínskum öryggissveitarmönnum.
Mynd af konunni sem á að hafa reynt að ráða Volodímír Selenskí ásamt úkraínskum öryggissveitarmönnum. SBU

Úkraínsk stjórnvöld segjast hafa komið í veg fyrir atlögu að lífi Volodómír Selenskí, forseta landsins. Úkraínsk kona hefur verið handtekinn vegna málsins. Hún er sögð hafa safnað gögnum um ferðir forsetans til að undirbúa rússneska loftárás.

Konan sem hefur ekki verið nafngreind ku vera frá borginni Ochakiv í Mykolaiv-héraði og vann sem sölukona í hernaðarvörubúð. Úkraínskar öryggissveitir greindu frá handtöku konunnar á mánudag.

Að sögn úkraínskra öryggissveita hafði konan verið að undirbúa rússneska loftárás á borgina Míkolæv í lok júlí þegar Selenskí var þar staddur. Konan hafði safnað gögnum um ferðir Selenskís og dvalarstaði hans.

Öryggissveitirnar segjast hafa komist á snoðir áætlanir konunnar í tæka tíð og þannig geta gert viðeigandi ráðstafanir. Fyglst hafi verið með konunni til að reyna að komast að frekari upplýsingum um rússneska tengilið hennar.

Á meðan öryggissveitirnar fylgdust með samskiptum konunnar kom einnig í ljós að hún átti að bera kennsl á staðsetningar rafræns hernaðarbúnaðar úkraínska hersins og vörugeymsla með skotfærum og vopnum hersins.

Hún hafi síðan verið „gripin glóðvolg“ þegar hún reyndi að færa Rússum gögnin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×