Umfjöllun: ÍBV - Stjarnan 0-2 | Stjörnumenn fara kátir í brekkuna

Einar Kárason skrifar
Stjörnumenn fögnuðu á Hásteinsvelli í dag.
Stjörnumenn fögnuðu á Hásteinsvelli í dag. vísir/hulda margrét

Eyjan brosti sínu breiðasta þegar ÍBV tók á móti Stjörnunni í sjálfum Þjóðhátíðarleiknum. Vel viðraði þegar knattspyrnuþyrstir gestir fengu sér sæti í stúkunum á Hásteinsvelli.

Leikurinn fór skemmtilega af stað og strax eftir fimm mínútna leik vildu heimamenn fá vítaspyrnu þegar Árni Snær Ólafsson virtist brjóta á Oliver Heiðarssyni en ekkert dæmt.

ÍBV hóf leikinn af krafti og staðráðnir í veita stuðningsmönnum gleði til að taka með sér í dalinn. Gestirnir ógnuðu mikið upp hægra megin og kom þaðan aragrúi af góðum fyrirgjöfum.

Þrátt fyrir fínustu skemmtun og góða spilamennsku inn á milli var ekki mikið um klár marktækifæri í fyrri hálfleiknum. Langbesta færi fyrri hálfleiks fékk Andri Adolphsson þegar skammt lifði hálfleiksins er boltinn datt fyrir hann inni í teig Eyjamanna en skotið kraftlaust og boltinn beint í hendur Guy Smit í marki ÍBV.

Staðan því markalaus í hálfleik og spennandi fjörutíu og fimm mínútur framundan.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleiknum. ÍBV byrjaði af krafti en stórkostlegur skortur var á alvöru tækifærum.

Hermann Þór Ragnarsson fór niður í teig Garðbæinga en eins og í fyrri hálfleiknum var ekkert dæmt og virtist það réttur dómur.

Fyrsta skot ÍBV á mark kom eftir tæplega klukkustundarleik þegar Eyþór Daði Kjartansson átti frábæra fyrirgjöf meðfram jörðinni frá hægri beint fyrir fætur Alex Freys Hilmarssonar en skot hans ekki nægilega gott og beint í hendur Árna Snæs.

Bæði lið virtust ætla að sætta sig við stig en það breyttist þegar mínúta var eftir af leiknum. Hilmar Árni Halldórsson fann þá varamanninn Joey Gibbs inni í teig ÍBV. Joey tók skotið með vinstri fæti og boltinn út við stöngina fjær.

Einungis mínútu síðar gerði Hilmar svo sjálfur út um leikinn eftir fyrirgjöf frá Kjartani Má Kjartanssyni sem kom sömuleiðis inn sem varamaður. Hilmar tók boltann í fyrsta og setti hann framhjá varnarlausum Guy í markinu.

Þar við sat og fara glaðbláir Stjörnumenn í þrumustuði í brekkuna í Herjólfsdal í kvöld.

Af hverju vann Stjarnan?

Í leik fárra færa nýtti varamaðurinn Joey Gibbs sitt eina færi. Hilmar Árni kláraði leikinn svo mínútu síðar með góðu marki úr teig.

Hverjir stóðu upp úr?

Alex Freyr var góður á miðsvæðinu hjá ÍBV. Vann ótal bolta og skilaði boltanum almennt vel frá sér. Hefði átt að gera betur í færi sínu en lítið annað hægt að setja út á hans leik. Hilmar Árni Halldórsson átti sömuleiðis fínar rispur í liði Stjörnunnar en framlag hans undir lok leiks skildi liðin að. Vörn gestanna stóð vaktina af prýði með Guðmund Kristjánsson leiðandi línuna.

Hvað gekk illa?

Eftir að hafa ætlað að hrósa varnarlínu beggja liða í dálkinum á undan hrundi leikur ÍBV alveg í blálokin eftir frábæra frammistöðu í áttatíu og níu mínútur. Sóknarleikur beggja liða var núllaður af góðum varnarleik en þegar uppi var staðir sýndu gestirnir einstaklingsgæði sem kláruðu leikinn.

Hvað gerist næst?

Einhverjir fagna á meðan aðrir drekkja sorgum. Gleðilega verslunarmannahelgi.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira