Íslenski boltinn

„Asnalegt að segja en ég er hrikalegur stoltur af liðinu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hermann Hreiðarsson þenur raddböndin.
Hermann Hreiðarsson þenur raddböndin. vísir/anton

Hermanni Hreiðarssyni, þjálfara ÍBV, fannst úrslitin gegn Víkingi ekki gefa rétta mynd af leiknum. Eyjamenn töpuðu leiknum, 6-0.

„Engan veginn en vissulega byrjuðum við illa og okkur var refsað fyrir lélegan varnarleik. Þetta voru ódýr mörk en lélegur varnarleikur, annað hvort eða bæði,“ sagði Hermann í samtali við Vísi eftir leikinn í Víkinni.

„Í kjölfarið, ég vil leyfa mér að segja að ég var hrikalega stoltur af liðinu. Við stoppuðum þá í öllu spili en þetta breytti leiknum vissulega. Ég var hrikalega ánægður og stoltur af liðinu. Það var ekki einn sem hengdi haus. Það eru þvílíkir karakterar í þessu liði. Þeir brettu allir upp ermarnar og við unnum baráttuna, alveg klárt. Gæðin í þeirra liði eru einfaldlega meiri og það er gat þar á milli en við sýndum sannarlega geggjað og frábært hugarfar í níutíu mínútur. Það er asnalegt að segja en ég er hrikalegur stoltur af liðinu.“

Eyjamenn fengu ágætis færi í leiknum en tókst ekki að skora.

„Við fengum frían skalla og svo getið þið dæmt um það hvort þetta hafi verið víti eða ekki. Ég ætla ekki að tala um dómarana. Hann var ekki til staðar í dag. Þeir nýttu sín færi en ekki við. Það er lykilinn. En í heildina, djöfull stoltur af liðinu,“ sagði Hermann.

Næsti leikur Eyjamanna er á laugardaginn, á Þjóðhátíð, gegn Stjörnumönnum.

„Þetta hefur verið svona síðustu tíu ár. Þetta er gaman, það verður fullt af fólki á vellinum og stemmning. Ég get alveg sagt þér að við tökum þennan karakter með okkur í næsta leik. Við höfum mætt tvíefldir í alla leiki. Þetta herðir okkur. Karakterinn sýndi sig,“ sagði Hermann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×