Erlent

Sækir um skilnað frá grunuðum raðmorðingja

Samúel Karl Ólason skrifar
Ása Ellerup hefur sótt um skilnað frá Rex Heuermann, sem grunaður er um að hafa myrt fjórar konur.
Ása Ellerup hefur sótt um skilnað frá Rex Heuermann, sem grunaður er um að hafa myrt fjórar konur. AP/Facebook

Íslensk kona sem gift er grunuðum raðmorðingja hefur sótt um skilnað. Ása Guðbjörg Ellerup er gift Rex Heuermann en hann hefur verið ákærður fyrir að myrða þrjár konur og er grunaður um að hafa myrt þá fjórðu í „Gilgo Beach morðunum“ svokölluðu.

AP fréttaveitan segir að Ása hafi sótt um skilnað í gær og var það staðfest af lögmanni hennar. Hann vildi þó ekkert segja frekar.

Í samtali við Fox sagði lögmaðurinn þó að líf Ásu og barna hennar hefði verið snúið algerlega á hvolf. Heuermann var handtekinn í New York borg en skömmu eftir það komu lögregluþjónar á heimili þeirra hjóna og sögðu Ásu og börnum þeirra frá handtökunni og ákærunni.

Lögmaðurinn segir fregnirnar hafa komið þeim alfarið í opna skjöldu. 

Sjá einnig: Grunaður raðmorðingi giftur íslenskri konu

Heuermann var handtekinn í síðustu viku en lögregluþjónar eru enn að leita á heimili hans og Ásu, sem eiga saman eina dóttur og hann á son úr fyrra hjónabandi. Þau eru bæði 59 ára gömul en fram kom í ákærunum gegn Heuermann að þegar hann er grunaður um hafa myrt konurnar þrjár var Ása ekki heima. Í einu tilviki var hún á Íslandi.

Ása var í gær mynduð í fyrsta sinn frá því Heuermann var ákærður.

Konurnar þrjár sem Heuermann hefur verið ákærður fyrir að myrða hétu Melissa Barthelemy, sem hvarf árið 2009 og Megan Waterman og Amber Costello, sem hurfu árið 2010. Fjórða konan, sem hann er grunaður um að hafa myrt hét Maureen Brainard-Barnes en hún hvarf árið 2007.

Hann hefur lýst yfir sakleysi sínu en situr í gæsluvarðhaldi, án möguleika á því að losna þar til hann mætir fyrir dómara í næsta mánuði.

Sjá einnig: Skæður raðmorðingi loks gómaður

Jóhanna Ellerup, systir Ásu, býr einnig í Bandaríkjunum en fjölmiðlar hafa rætt við hana á undanförnum dögum. Hún segist ekki hafa átt í samskiptum við Ásu og að hún viti í raun lítið um hvað sé að gerast. Það sama eigi við föður þeirra, Fróða Ellerup.

Sjá einnig: „Við höfum ekki heyrt neitt frá henni“

Hér að neðan má sjá sjónvarpsfrétt héraðsmiðilsins PIX11 þar sem meðal annars er rætt við Jóhönnu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×