Íslenski boltinn

„Það er eitt sem mér finnst að KSÍ mætti fara að skoða“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Aron (fyrir miðju) er spenntur fyrir kvöldinu.
Aron (fyrir miðju) er spenntur fyrir kvöldinu. Vísir/Diego

Aron Jóhannsson, leikmaður Vals, er spenntur fyrir leik liðsins við Stjörnuna í Bestu deild karla í fótbolta í Garðabæ í kvöld. Stjarnan mun þar spila sinn fyrsta leik í tæpar þrjár vikur.

Valsmenn hafa verið á mikilli siglingu en voru í álíka langri pásu og Stjörnumenn fyrir sigur sinn á Fylki í síðustu viku. Aron gagnrýnir hversu langt sé á milli leikja, sérstaklega um hásumarið þegar aðstæður eru hvað bestar til knattspyrnuiðkunar.

„Okkur líður vel. Við erum búnir að vera að spila þokkalega vel en kannski eins og á móti Fylki, þar sem aðalatriðið var að fá þrjú stig, en erum kannski ekki alveg nógu ánægðir með spilamennskuna á köflum. Við vorum náttúrulega að koma úr þriggja vikna sumarfríi um hásumar,“

„Það er eitt sem mér finnst að KSÍ mætti fara að skoða, hvernig stendur á því að lið séu í þriggja vikna pásum hérna hægri, vinstri, á miðju sumri þegar veðrið er sem best. Það er mikið talað um að lengja tímabilið þá er skrýtið að maður sé í svona löngum pásum um hásumar,“ segir Aron.

Hann kveðst þó spenntur fyrir leiknum en Stjarnan vann afar góðan 5-0 sigur á FH í síðasta leik sínum fyrir pásuna.

„Þetta leggst mjög vel í mig. Stjarnan er náttúrulega með mjög gott lið og ég held að helmingurinn af hópnum þeirra sé í öllum þessum yngri landsliðum. Svo í bland við það eru þeir með reynslumikla leikmenn sem hafa verið í deildinni í tugi ára. Mér finnst hafa verið stígandi í þeirra liði undanfarið og þetta verður hættulegur leikur fyrir okkur,“ segir Aron.

Leikur Stjörnunnar og Vals hefst klukkan 19:15 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×