Erlent

„Hjart­sláttar­frum­varp“ sam­þykkt í Iowa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Efnt var til mótmæla í þinghúsinu í gær þegar frumvarpið var samþykkt.
Efnt var til mótmæla í þinghúsinu í gær þegar frumvarpið var samþykkt. AP/Hannah Fingerhut

Ný lög hafa verið samþykkt í Iowa í Bandaríkjunum sem banna þungunarrof í nær öllum tilvikum eftir að hjartsláttur finnst, sem er yfirleitt eftir sex vikna meðgöngu, fyrir þann tíma sem flestar konur vita að þær eru óléttar.

Aðeins þingmenn Repúblikanaflokksins greiddu atkvæði með frumvarpinu en það dugði til þar sem þeir eru í meirihluta í báðum þingdeildum Iowa-þings. Lögin taka gildi um leið og ríkisstjórinn hefur undirritað þau, sem er á dagskrá á föstudag.

Nokkrar undanþágur eru gerðar frá hinu sex vikna viðmiði; til dæmis þegar um er að ræða þungun í kjölfar nauðgunar eða sifjaspells. Þá verður heimilt að framkvæma þungunarrof fram að 20. viku þegar bráð hætta steðjar að lífi móðurinnar.

Tuttugasta vikan var viðmiðið samkvæmt þeim lögum sem nú falla úr gildi.

Ríkisstjórinn Kim Reynolds segir um að ræða réttlæti til handa hinu ófædda barni en samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs hafa þegar verið lögð drög að kærum vegna nýju lagasetningarinnar.

Áþekk lög sem voru samþykkt í Iowa árið 2018 voru stöðvuð af hæstarétti ríkisins en síðan þá hefur Hæstiréttur Bandaríkjanna fellt úr gildi dóminn í Roe gegn Wade, sem hafði fram að því tryggt öllum konum réttinn til að gangast undir þungunarrof.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×