Erlent

Svara ekki spurningum um örlög hátt setts hershöfðingja

Kjartan Kjartansson skrifar
Sergei Surovikin hefur ekki sést opinberlega frá því að hann kom fram í myndbandi til þess að reyna að kveða niður uppreisn Wagner-hópsins um helgina.
Sergei Surovikin hefur ekki sést opinberlega frá því að hann kom fram í myndbandi til þess að reyna að kveða niður uppreisn Wagner-hópsins um helgina. Vísir/EPA

Stjórvöld í Kreml svara ekki spurningum um Sergei Surovikin, fyrrverandi yfirmann innrásarhersins í Úkraínu, sem ekkert hefur spurst til frá því að málaliðaforingi gerði uppreisn gegn hermálayfirvöldum um helgina. Óstaðfestar heimildir herma að Surovikin hafi verið handtekinn.

Rússneski fjölmiðilinn Moscow Times hafði eftir heimildarmönnum sínum í gær að Surovikin hefði verið tekinn höndum fyrir stuðning við Jevgeníj Prigozhin og Wagner-málaliðaher hans sem gerðu skammlífa uppreisn gegn stjórn hersins um helgina.

Ekkert hefur sést til Surovikin opinberlega frá því á laugardag eða frá því að hann hvatti Prigozhin til þess að láta af uppreisn sinni í myndbandi. Reuters-fréttastofan segir að hann hafi virst uppgefinn á myndbandinu og óljóst hafi verið hvort að hann hefði verið þvingaður til upptökunnar.

Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlarstjórnar, neitaði að svara spurningum um Surovikin í morgun og vísaði á varnarmálaráðuneytið. Það hefur ekkert tjáð sig um hershöfðingjann. Peskov svaraði heldur ekki beint spurningu um hvort að Vladímír Pútín forseti bæri enn traust til Surovikin.

Reuters segist ekki hafa getað staðfest hvort að Surovikin hefði verið handtekinn eða yfirheyrður af leyniþjónustunni til þess að staðfesta hollustu hans við stjórnvöld eins og sumir rússneskir herbloggarar halda fram.

Ekkert sést til yfirmanns hersins heldur

Bandaríska dagblaðið New York Times greindi frá því í gær að bandaríska leyniþjónustan teldi að Surovikin hafi haft vitneskju um uppreisnaráform Prigozhin fyrir fram. Óljóst væri hvort að hann hefði hjálpað við skipulagningu hennar. Peskov lýsti þeim fréttum sem „slúðri“ og „vangaveltum“ í gær.

Surovikin stýrði aðgerðum í Úkraínu þar til í janúar. Hann gengur undir viðurnefninu „Harmagedón hershöfðingi“ vegna þess hve vægðarlaus hann var þegar hann stýrði hernaði Rússa í Sýrlandi á sínum tíma.

Prigozhin sjálfur er talinn hafa komið til Minsk í Hvíta-Rússlandi á þriðjudag. Samkomulag við Pútín sem batt enda á uppreisn hans fól í sér að hann og málaliðar hans fengju að fara til nágrannalandsins í nokkurs konar útlegð og slyppu við saksókn.

Ekkert hefur heldur sést til Valeríj Gerasimov, yfirmanni rússneska hersins, eftir uppreisnina um helgina. Reuters segir að hann hafi heldur ekki verið nefndur á nafn í yfirlýsingum hersins frá 9. júní. Uppreisn Prigozhin beindist sérstaklega að Gerasimov og Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra, sem hann telur að hafi klúðrað málum í Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×