Íslenski boltinn

Koma Arons sé stór yfir­lýsing til and­stæðinga Víkinga: „Bestur í deildinni á sínum degi“

Aron Guðmundsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur, er ánægður með nýjasta leikmann félagsins
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur, er ánægður með nýjasta leikmann félagsins Vísir/Samsett mynd

Arnar Gunn­laugs­son, þjálfari Bestu deildar liðs Víkings Reykja­víkur, segir nýjan leik­mann fé­lagsins Aron Elís Þrándar­son besta leik­mann deildarinnar á sínum degi. Koma hans til Víkings feli í sér yfir­lýsingu frá fé­laginu til and­stæðinga sinna.

Greint var frá því í dag að Aron Elís myndi snúa heim úr at­vinnu­mennsku til upp­eldis­fé­lags síns Víkings Reykja­víkur og skrifar hann undir þriggja og hálfs árs samning í Foss­voginum.

Aron Elís er 28 ára gamall og hefur verið á mála hjá danska úr­vals­deildar­fé­laginu OB undan­farin ár. Þá á hann að baki 17 A-lands­leiki fyrir Ís­lands hönd, en talið er að um sé að ræða stærstu fé­lags­skipti til liðs á Ís­landi í langan tíma.

„Ég er í skýjunum,“ segir Arnar Gunn­laugs­son, þjálfari Víkinga um komu Arons. „Þetta eru frá­bærar fréttir fyrir okkur Víkinga sem og ís­lenskan fót­bolta í heild sinni. Aron Elís er að koma aftur heim á besta aldri og á nóg eftir. Hann er líka vel hungraður í að ná árangri með okkur. Þetta eru ein­hver af stærstu fé­lagskiptum í sögu ís­lensks fót­bolta. Sér í lagi miðað við það á hvaða aldri Aron Elís og þá stað­reynd að hann á sín bestu ár á leik­manna­ferlinum eftir.“

Sér Aron fyrir sér framar á vellinum

Aron Elís þekkir um­hverfið hér heima vel en hann blómstraði hjá Víkingum, bæði í efstu sem og næst efstu deild áður en hann hélt út í at­vinnu­mennsku eftir tíma­bilið árið 2014.

En hvar passar Aron Elís inn í lið Víkings á þessari stundu? Hvernig ætlar Arnar að nýta krafta hans?

„Hann hefur breyst svo­lítið sem leik­maður frá því að hann hélt fyrst út í at­vinnu­mennsku. Hann fór út sem hrein­ræktuð tía, er að skora mörk og leggja upp mörk en nú hefur hann færst aftar á völlinn, breyst í svona dou­ble pi­vot gaur.“

Aron Elís í leik með Víkingum á sínum tímaVísir/Arnþór

„Mig langar hins vegar að sjá hann fram á vellinum. Ég held að það búi enn þá mörk í honum. Mig langar því að færa hann framar, koma honum inn í víta­teiginn og nær marki and­stæðinganna.

En í þessum nú­tíma­fót­bolta þarftu líka að verjast. Þessi tíu staða, sem Aron Elís sinnti í gamla daga, er bara löngu orðin dauð í fót­boltanum. Því miður segi ég, af því að ég elskaði hana sjálfur sem leik­maður. Við finnum ein­hverja góða stöðu fyrir Aron.“

Koma hans sé skýr yfirlýsing

Víkingar sitja á toppi Bestu deildarinnar um þessar mundir. 

Má ekki tala um að þetta sé ansi stór yfir­lýsing frá ykkur, um að þið ætlið að berjast á öllum víg­stöðvum til loka tíma­bils?

„Jú klár­lega. Að koma með svona yfir­lýsingu, þegar að við erum með fimm stiga for­skot á toppi deildarinnar, er virki­lega sterkt og bara mikið hrós til Kára Árna­sonar, yfir­manns knatt­spyrnu­mála hjá okkur, sem og stjórnarinnar fyrir að hafa klárað þetta mál.

Svo megum við líka leyfa okkur að dreyma enn lengra og þetta eru á­kveðin skila­boð hvað það varðar. Okkur langar að leggja mikla á­herslu og gera harða at­lögu að því að komast í riðla­keppni Sam­bands­deildarinnar.

Það er kannski frekar ó­raun­hæft þetta árið en farandi inn í næsta tíma­bil, og þá vonandi sem Ís­lands­meistarar, er meiri séns fyrir okkur á að ná því mark­miði. Að á næstu á­tján mánuðum munum við róa að því öllum árum að komast eins langt og mögu­legt er í Evrópu­keppninni.“

Víkingar hafa verið á góðu skriði í Bestu deildinni á yfirstandandi tímabiliVísir/Hulda Margrét

Kemur ekki til að láta ferilinn deyja út

Þá sé það virðingar­vert af Aroni Elís, sem hafði mögu­leika á því að halda á­fram úti í at­vinnu­mennsku, að snúa heim á þessum tíma­punkti til upp­eldis­fé­lagsins.

„Jú al­gjör­lega og eins og Kári og Sölvi Geir töluðu um á sínum tíma þegar að þeir sneru aftur heim, þá voru þeir virki­lega stressaðir fyrir sínum fyrsta leik í langan tíma í Víking­s­treyjunni.

Þetta er fé­lagið hans Arons Elís og mönnum er annt um sitt orð­spor. Aron er ekki að koma hingað til að deyja. Hann er á besta aldri, er að koma inn í hörku lið með at­vinnu­manna hugar­far og mun lyfta öllu fé­laginu upp. Þetta er bara stór­kost­legt fyrir okkur ef ég á að segja alveg eins og er.“

Víkingur númer eitt öll þessi ár

Arnar segir að af sam­tölum hans við Aron Elís að dæma sé leik­maðurinn að snúa virki­lega hungraður aftur heim til Ís­lands.

„Hann orðaði það nú bara skemmti­lega sjálfur, að hann væri að snúa aftur til fé­lagsins til þess að gefa af sér. Hann kemur til okkar með fullan brunn af visku og hefur sjálfur gengið í gegnum hæðir og lægðir.

Þá sér hann alveg hvað er í gangi hérna hjá okkur. Aron Elís hefur verið Víkingur númer eitt þessi ár sem hann hefur verið úti í at­vinnu­mennsku, hann fylgist vel með og hefur verið að mæta á æfingar hjá okkur í sínu sumar­fríi. Hann hefur mætt vel á leiki og hefur, að ég held, séð alla leiki okkar í sumar.

Hann veit því nokkurn veginn að hverju hann gengur og að hann hlakki til að æfa og spila með okkur.“

Aron Elís í leik með íslenska landsliðinu á síðasta áriVísir/Getty

Þá hafi það tölu­vert mikið að segja að Aron sé ekki bara virki­lega fram­bæri­legur fót­bolta­maður, hann er einnig upp­alinn Víkingur.

„Þetta er sama staða og var uppi þegar að við fengum Kára og Sölva Geir inn á sínum tíma. Þetta eru gegn heilir Víkingar sem er ekki sama um það sem á sér stað hér. Þeim er annt um fé­lagið sitt og það verða nokkur fiðrildi í maganum á Aroni fyrir hans fyrsta leik í endur­komunni.“

Verði með skotmark á sér

Hann sé klár­lega besti leik­maðurinn í deildinni þegar að hann lendir á sínum degi

„En á sama tíma þá er Besta deildin bara drullu erfið. Ef þú ert ekki í standi, ætlar þér að vera með eitt­hvað hálf­kák, þá ertu bara étinn.

Ég tala nú ekki um þegar að svona leik­menn eins og Aron mæta í deildina. Þá ertu að spila á móti hungruðum leik­mönnum sem vilja sýna sig og sanna á móti honum. Aron verður því virki­lega að vera í standi, bæði líkam­lega og and­lega, til að plumma sig vel. En ég hef engar á­hyggjur, hann verður í standi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×