Enski boltinn

Eng­lands­meistararnir að fá einn eftir­sóttasta varnar­mann heims

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gvardiol er sáttur.
Gvardiol er sáttur. EPA-EFE/CLEMENS BILAN

Joško Gvardiol, leikmaður RB Leipzig í Þýskalandi, hefur komist að samkomulagi við Manchester City og mun leika með liðinu á næsti leiktíð ef Englandsmeistararnir ná samkomulagi við Leipzig.

Ítalska félagaskiptavéfréttin Fabrizio Romano greinir frá þessu. Hann segir að Man City hafi samið við hinn 21 árs gamla Gvardiol en eigi eftir að ná samkomulagi við Leipzig. Þýska félagið vill að Króatinn verði dýrasti varnarmaður heims. Talar Romano um að kaupverðið verði yfir 100 milljónir evra.

Englandsmeistararnir hafa verið heldur rólegir á markaðnum það sem af er sumri. Þeir sóttu Mateo Kovačić frá Chelsea til að fylla skarð İlkay Gündoğan en sá samdi við Spánarmeistara Barcelona eftir að samningur hans rann út. Þá hefur Kyle Walker verið orðaður frá félaginu.

Pep Guardiola, þjálfari liðsins, vill greinilega hafa fleiri varnarmenn í leikmannahópi sínum og ætti að styttast í að Man City nái samkomulagi við Leipzig um hinn örvfætta Gvardiol. Sá er talinn einn efnilegasti varnarmaður heims í dag.

Hann getur leyst bæði miðvörð og bakvörð. Hann gekk í raðir RB Leipzig árið 2020 frá Dinamo Zagreb í heimalandinu. Þá hefur Gvardiol spilað 21 A-landsleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×