Erlent

Plast­barka­læknirinn hlaut þungan dóm

Árni Sæberg skrifar
Paolo Macchiarini á blaðamannafundi um meinta vel heppnaða barkaígræðslu árið 2010. Hann hefur boðað til annars blaðamannafundar í dag.
Paolo Macchiarini á blaðamannafundi um meinta vel heppnaða barkaígræðslu árið 2010. Hann hefur boðað til annars blaðamannafundar í dag. AP/LORENZO GALASSI

Ítalski skurðlæknirinn Paulo Macchiarini var í dag dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar fyrir grófar líkamsárásir gagnvart þremur einstaklingum, sem fengu grædda í sig plastbarka hjá lækninum. Sjúklingarnir létust allir fáeinum mánuðum eftir aðgerðirnar.

Macchiarini var sakfelldur fyrir grófar líkamsmeiðingar í tilfelli eins sjúklings, en sýknaður hvað varðaði hina tvo, í héraði í fyrra.

Áfrýjunardómstóll kvað upp dóm í málinu í dag og sneri við niðurstöðu lægra setta dómstólsins. Saksóknari í málinu fór fram á það að læknirinn yrði dæmdur til fimm ára fangelsisvistar.

Í niðurstöðukafla dómsins segir að ekki lægi vafi á því að læknirinn hafi talið að aðferð hans myndi bera árangur en hann hafi samt sem áður starfað með saknæmum hætti.

„Rannsókn sýndi fram á að hann hafi gert sér grein fyrir því að aðgerðirnar myndu valda sjúklingum hans líkamstjóni og miska, og að hann hafi látið sér afleiðingarnar í léttu rúmi liggja,“ segir í dóminum.

Í frétt Reuters um dóminn segir að verjendur læknisins hafi ekki viljað tjá sig við miðilinn en að Macchiarini hefði boðað til blaðamannafundar síðar í dag.

Sjö ár eru nú síðan málið rataði í fjölmiðla eftir að uppljóstrari greindi frá aðgerðum Macchiarini með plastbarka. Sjö sjúklinga Macchiarini sem fengu plastbarka grædda í sig eru nú látnir og þurftu háttsettir menn á Karolinska-sjúkrahúsinu í Stokkhólmi meðal annars að láta af störfum vegna málsins.

Ákæruliðirnir þrír sneru að þremur sjúklingum Macchiarini; 36 ára karlmanni sem búsettur var á Íslandi, þrítugum Bandaríkjamanni og svo 22 ára konu frá Tyrklandi. Macchiarini var upphaflega aðeins sakfelldur fyrir aðgerðina á konunni frá Tyrklandi.


Tengdar fréttir

Krefst þyngri refsingar yfir plast­barka­lækninum

Saksóknarar í Svíþjóð áfrýjuðu dómi yfir Paolo Macchiarini, ítölskum skurðlækni, sem er sakaður um að hafa beitt sjúklinga grófum líkamsmeiðingum með plastbarkaígræðslum sínum, í dag. Þeir sækjast eftir því að læknirinn hljóti þungan fangelsisdóm.

Fer fram á fimm ára fangelsi yfir Macchiarini

Saksóknari í Svíþjóð hefur farið fram á að ítalski skurðlæknirinn Paulo Macchiarini verði dæmdur í fimm ára fangelsi vegna grófra líkamsmeiðinga á þremur einstaklingum sem fengu grædda í sig plastbarka hjá lækninum. Sjúklingarnir létust allir fáeinum mánuðum eftir aðgerðirnar.

Dóms­mál gegn Macchiarini þing­fest í Sví­þjóð á morgun

Mál sænska ákæruvaldsins gegn ítalska skurðlækninum Paolo Macchiarini verður þingfest í héraðsdómstólnum í Solna á morgun. Macchiarini er ákærður í plastbarkamálinu svokallaða en hann er ákærður fyrir gróft ofbeldi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×