Erlent

Hefja rannsókn á máli Macchiarini að nýju

Atli Ísleifsson skrifar
Paolo Macchiarini starfaði við Karolinska í Stokkhólmi.
Paolo Macchiarini starfaði við Karolinska í Stokkhólmi. Vísir/EPA
Saksóknarar í Svíþjóð hafa ákveðið að taka að nýju upp mál ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarini. Leikur grunur á að hann hafi með aðgerðum sínum gerst brotlegur og orðið í tvígang valdur að líkamlegu tjóni.

Sænskir fjölmiðlar greindu frá þessu í morgun og segja að saksóknarar hafi rannsakað mál þriggja sjúklinga sem fengu plastbarka grædda í sig af Macchiarini sem starfaði við Karolinska háskólasjúkrahúsinu í Svíþjóð.

Ákveðið hafi verið að taka upp rannsókn á máli tveggja sjúklinga að nýju – máli konu frá Tyrklandi og máli Erítreumannsins Andemariam Beyene sem sendur var til Stokkhólms frá Íslandi til að gangast undir aðgerð hjá Macchiarini. Komandi rannsókn kann síðar meir að leiða til að ákæra verði gefin út á hendur Macchiarini.

Höfðu áður fellt málið niður

Saksóknarar í Svíþjóð höfðu áður komist að þeirri niðurstöðu að fella niður mál gegn skurðlækninum þar sem ekki taldist vera hægt að sanna það með óyggjandi hætti að aðgerðirnar hafi leitt til dauða sjúklinganna.

Andemariam hafði búið á Íslandi og glímdi við krabbamein í barka þegar hann var sendur utan 2011. Hann lést þremur árum síðar. Tómas Guðbjartsson var læknir Andemariam og í hópi meðhöfunda greina eftir Macchiarini þar sem fjallað var um rannsóknir á sjúklingnum.

Vísindalegt misferli

Opinber siðanefnd í Svíþjóð komst á síðasta ári að þeirri niðurstöðu að Macchiarini hafi gerst sekur um vísindalegt misferli við rannsóknirnar á ígræðslunum.

Rannsóknarnefnd, sem forsvarsmenn Háskóla Íslands og Landspítala skipuðu, rannsakaði þátt íslensku læknanna sem tengjast málinu og skilaði sinni skýrslu í lok síðasta árs. Þar kom meðal annars fram að Macchiarini hafi blekkt Tómas til að breyta tilvísun  sem hafi vart verið í samræmi við læknalög. Þá hafi Tómas ekki sýnt næga aðgæslu í samskiptum sínum við ítalska skurðlækninn.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.