Veður

Hita­tölur vestan­til gætu skriðið yfir fimm­tán stig

Atli Ísleifsson skrifar
Reikna má með austlægari átt á morgun.
Reikna má með austlægari átt á morgun. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir að næstu daga verði veðrið á svipuðum nótum og að undanförnu nema að það megi búast við að hlýni heldur. Engu að síður muni verða bjart með köflum í dag en síðan skýjað meirihluta tímans um landið vestanvert og gætu hitatölurnar skriðið yfir fimmtán stiga múrinn yfir daginn.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að á móti muni hitinn stíga yfir 22 stig allvíða norðaustan og austantil, einkum þar sem hafgola nái ekki að gera sig gildandi enda kæli hún hratt þar sem hafið er lítt farið að hitna og því köld gola sem komi inn, nái hún yfirhöndinni.

Reikna má með austlægari átt á morgun og sums staðar stöku skúrir suðvestantil.

Mun hærri hitatölur verða fyrir austan. Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Suðaustlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og víða bjart, en þykknar upp með lítilsháttar vætu á Suðvestur- og Vesturlandi. Hiti 12 til 22 stig, hlýjast um landið austanvert.

Á fimmtudag og föstudag: Suðaustlæg eða breytileg átt 3-8 m/s, skýjað með köflum og stöku skúrir. Áfram hlýtt í veðri, einkum austantil.

Á laugardag (lýðveldisdagurinn): Suðlæg átt 3-8 m/s og skýjað, en úrkomulítið um landið vestanvert, annars bjart veður. Hiti 10 til 23 stig, hlýjast á Austurlandi.

Á sunnudag og mánudag: Útlit fyrir suðaustlæga átt, skýjað og víða dálítil væta, síst norðantil. Hiti breytist lítið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×