Umfjöllun og viðtöl: Valur - Tindastóll 5-0 | Íslandsmeistararnir sýndu enga miskunn

Jón Már Ferro skrifar
Valskonur skoruðu fimm.
Valskonur skoruðu fimm. Vísir/Vilhelm

Íslandsmeistarar Vals fóru illa með nýliða Tindastóls í 8. umferð Bestu-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Valskonur styrktu stöðu sína á toppi deildarinnar þar sem bæði Stjarnan og Þróttur Reykjavík töpuðu.

Yfirburðir Valskvenna voru miklir í leiknum og eftir á að hyggja hefði sigurinn getað orðið stærri. Mótspyrna Tindastóls var ekki mikil eftir að Valur skoraði fyrsta markið á 25. mínútu. Fram að því var leikurinn jafnari og ekkert benti til þess að sigur Vals yrði svona stór.

Þórdís Elva Ágústsdóttir bætti við öðru marki Vals tíu mínútum eftir að Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu sem hún fiskaði sjálf. Mark Þórdísar var eftir frábæran undirbúning Láru Kristínar Pedersen sem fór illa með varnarmenn Tindastóls.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks bætti Bryndís Arna við öðru marki sínu og þriðja marki Vals með frábæru skoti í slánna og inn. Undirbúningurinn var í boði Ásdísar Karenar sem átti góðan sprett upp vinstri kantinn.

Þrenna Bryndísar var fullkomnuð rétt eftir að seinni hálfleikurinn var flautaður á. Monica Elisabeth Wilhelm, markvörður Tindastóls, horfði á eftir boltanum renna framhjá sér eftir frábæra afgreiðslu Bryndísar.

Fanndís Friðriksdóttir, fyrrum landsliðskona, og goðsögn í íslenskum fótbolta kom inn á 76. mínútu. Hún gat ekki verið inni á vellinum í meira en rétt rúmar tíu mínútur áður en hún skoraði hundraðasta og tólfta mark í efstu deild. Hún hafði ekki spilað síðan 10. september 2021.

Af hverju vann Valur?

Yfirburðir Vals voru algjörir eftir fyrsta markið á 25. mínútu. Tindastóll átti aldrei möguleika og komust allt of sjaldan út úr pressu Hlíðarendakvenna sem hefðu getað skorað fleiri mörk í kvöld.

Það var einfaldlega allt of erfitt fyrir Tindastól að vera 3-0 undir í hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Það er erfitt að horfa framhjá Bryndísi Örnu Níelsdóttur. Hún skoraði tvö glæsileg mörk og eitt úr víti sem hún sótti sjálf.

Annars voru flestir leikmenn Vals góðir í leiknum. Pressa þeirra og gæðin fyrir framan markið skilaði þeim fimm mörkum.

Hvað gekk illa?

Tindastól gekk illa að komast almennilega úr pressu Vals sem sýndu hvers vegna þær eru Íslandsmeistarar.

Hvað gerist næst?

Valskonur fara suður með sjó miðvikudaginn 21. júní og spila við Keflavík 19:15. Seinna um kvöldið eða klukkan 20:00 spilar Tindastóll við Þór/KA á Þórsvelli.

„Það er kannski fínt fyrir þig að koma og taka æfinguna fyrir mig á morgun“

Pétur Pétursson er þjálfari Íslandsmeistara Vals.VÍSIR/VILHELM

Pétur Pétursson segir sitt lið hafa spilað góðan leik. Sérstaklega í seinni hálfleik. 

„Við héldum áfram að gera það sem við höfum verið að gera og leikmenn voru samstíga í öllu. Mér fannst þetta gott lið í dag. Það var frábært að sjá Fanndísi koma eftir svona langan tíma og skora mark. Ég var reyndar alveg viss um að hún myndi skora. Það var frábært að sjá það,“ segir Pétur.

Eftir að Valur skoraði var mótspyrna Tindastól lítil sem engin. Lið Tindastóls var ekki lélegt heldur voru Valskonur mjög grimmar inni í teignum og refsuðu fyrir lítil misstök.

„Þegar við náðum inn öðru og þriðja markinu þá róaðist dálítið mikið yfir okkur. Svo skorum við strax fjórða markið í byrjun seinni hálfleiks. Auðvitað er það erfitt fyrir Tindastól að spila á móti því,“ segir Pétur.

Hann var ekki sammála því að Valur hefði mátt gera meira. Eðlilega kannski þar sem leikurinn endaði með stórum sigri.

„Það er kannski fínt fyrir þig að koma og taka æfinguna fyrir mig á morgun. Fimm núll eru góð úrslit á móti Tindastóls. Það er vanalega erfitt að spila á móti þessu liði og við berum mikla virðingu fyrir þeim,“ segir Pétur.

„Ég er stolur af stelpunum mínum“

Donni eða Halldór Jón Sigurðsson er þjálfari Tindastóls.Vísir/Bára Dröfn

Halldór Jón Sigurðsson fannst sitt lið byrja leikinn vel og halda Val vel í skefjum. Eftir að Hlíðarendakonur skoruðu fyrsta markið úr víti sem Halldór var ósáttur með að dómarinn hafi dæmt.

„Ég er stoltur af stelpunum mínum. Þær reyndu sitt allra besta og reyndu að halda í boltann. Við þurfum að vera aðeins betri í því sem við ætluðum að gera. Ég vænti þess að við reynum að byggja áfram ofan á það,“ segir Halldór eða Donni eins og hann er alltaf kallaður.

Donni nýtti tækifærið og hrósaði Valsliðinu.

„Valur er með meiri gæði en við og betra lið. Þær eru Íslandsmeistarar og verða að öllum líkindum aftur ef það fer eins og ég held að það fari. Það sem vantaði hinsvegar hjá okkur er að þegar við komust með boltann í kringum miðjuna að geta opnað þær eftir það. 

Það var fullt af svæði fyrir aftan Valsliðið. Mér fannst við ekki nógu klók í þeim stöðum þegar við vorum að koma boltanum þangað. Við hefðum getað komið boltanum oftar þangað. Bæði í framherja til að skipta yfir á hinn kantinn eða til að setja inn fyrir,“ segir Donni.

Hann segir að lið sitt muni halda áfram að reyna að verða betra í því sem þær eru að reyna. Lengstan hluta leiks reyndi Tindastólsliðið að spila sig úr öftustu línu sem er ekki sjálfgefið þegar munurinn á liðunum er svona mikill.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira