Erlent

Segja kjarn­orku­vopnum fjölga og heims­byggðina fljóta að feigðar­ósi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þúsundir kjarnaodda eru reiðubúnir til notkunar.
Þúsundir kjarnaodda eru reiðubúnir til notkunar. Getty

Kjarnavopnum er að fjölga á ný að sögn sérfræðinga hugveitunnar Stockholm International Peace Research Institute (Sipri), sem vara við því að heimsbyggðin sé að sigla inn í „hættulegasta tímabil mannkynssögunnar“.

Stofnunin segir 12.512 kjarnaodda til í heiminum, þar af 9.576 sem eru hluti af vopnabirgðum ríkja og reiðubúnir til notkunar. Um er að ræða fjölgun um 86 frá því fyrir ári.

Sipri segir 60 af þessum 86 tilheyra Kína.

Þá eru Rússar sagðir hafa fjölgað um tólf, Pakistan um fimm, Norður-Kórea um fimm og Indland um fjóra.

Aðeins tvö ár eru liðin frá því að ríkin fimm sem eiga fast sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna; Bandaríkin, Rússland, Kína, Bretland og Frakkland, ályktuðu að „kjarnorkustríð getur ekki unnist og má aldrei verða háð“.

Bandaríkjamenn og Rússland eiga um 90 prósent allra kjarnavopna í heiminum, Rússar 4.489 og Bandaríkin 3.708.

Sipri áætlar að um 3.844 kjarnaoddar séu „virkir“, það er að segja til reiðu til notkunar í flugvélum eða kafbátum. Af þessum 3.844 eru um það bil 2.000 sagðir þegar á flugskeytum eða „á lager“ á herstöðvum sem hýsa sprengjuflugvélar.

Sipri segir að dregið hafi úr gagnsæi hvað varðar kjarnorkuvopnabirgðir heimsins en Kína hafi til að mynda aldrei gefið upp hvað þeir eigi mörg kjarnavopn. Hins vegar sé vitað að þeir hafi verið að styrkja hernaðarlega innviði og bæta við sig kjarnorkusprengjum.

„Það verður sífellt erfiðara að sætta það við yfirlýst markmið Kína um að búa aðeins að lágmarks kjarnorkuvopnagetu til að tryggja þjóðaröryggi,“ segir Hans M Kristensen.

„Við erum að fljóta inn í eitt hættulegasta tímabil mannkynssögunnar,“ segir Dan Smith, framkvæmdastjóri hjá Sipri. „Það er gríðarlega mikilvægt að ríkisstjórnir heims finni leiðir til að draga úr pólitískri spennu, hægja á vopnakapphlaupinu og fást við versnandi afleiðingar umhverfishamfara og aukið hungur.“

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×