Erlent

Hlé­barð­arn­ir sjást í fyrst­a sinn á víg­lín­un­um

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir hermenn á skriðdreka í austurhluta landsins. Þetta er ekki Leopard skriðdreki.
Úkraínskir hermenn á skriðdreka í austurhluta landsins. Þetta er ekki Leopard skriðdreki. AP/Iryna Rybakova

Úkraínumenn eru sagðir hafa gert umfangsmiklar árásir gegn Rússum í Sapórisjía-héraði en þýskir skriðdrekar af gerðinni Leopard hafa sést á víglínunum í fyrsta sinn.

Síðustu daga hafa Úkraínumenn verið að gera árásir nærri Velyka Novosilka í Dónetsk-héraði. Í gær hófust svo umfangsmiklar vestar í Sapórisjía-héraði, suður af bænum Orikhiv.

Fregnir hafa borist af því að þýskir Leopard skriðdrekar hafi verið notaðir til árása í gær og hafa Rússar birt drónamyndir sem virðast sýna nokkra slíka skriðdreka sem hafa orðið fyrir skemmdum eða verið grandað í árásum stórskotaliðs.

Nánast allar fregnir af sókn Úkraínumanna koma frá rússneskum herbloggurum og rússneska varnarmálaráðuneytinu, þar sem Úkraínumenn hafa lýst yfir algjöru samskiptabanni. Í umfjöllun rússneskra herbloggara hallar töluvert á Úkraínumenn.

Þessar myndir munu hafa verið teknar nærri Orikhiv í gær. Fyrr í gær var birt mynd á samfélagsmiðlum í Rússlandi sem átti að sýna ónýtan Leopard skriðdreka. Henni hafði verið breytt.

Einnig eru bardagar sagðir eiga sér stað nærri Bakhmut í Dónetsk-, þar sem Úkraínumenn eru sagðir hafa náð nokkrum árangri.

Sapórisjía er mikilvægt hérað

Sérfræðingar hafa lengi talið Úkraínumenn líklega til að reyna að sækja til suðurs í Dónetsk og Sapórisjía, með því markmiði að skera á landbrú Rússa milli Rússlands og Krímskaga. Með því gætu Úkraínumenn gert Rússum mun erfiðara að halda Krímskaga.

Rússar hafa þó byggt upp umfangsmiklar varnir á þessu svæði. Bæði héruðin eru meðal þeirra sem Rússar hafa innlimað ólöglega.

Þó Úkraínumenn virðist hafa lagt meira púður í árásir í Sapórisjía er enn of snemmt að segja að meginþungi árása þeirra verði þar.

Úkraínumenn hafa í vetur byggt upp ný stórfylki, sem eru að mestu skipuð kvaðmönnum búnum vestrænum vopnum og skrið- og bryndrekum. Þessar sveitir eru þó óreyndar og hafa það erfiða verkefni að brjóta varnir Rússa á bak aftur. Varnir sem Rússar hafa haft nokkra mánuði til að undirbúa, eru í nokkrum lögum og þaktar jarðsprengjum.


Tengdar fréttir

Fá eldri skriðdreka en fá þá fyrr

Yfirvöld í Bandaríkjunum ætla að flýta skriðdrekasendingum til Úkraínu. Í stað þess að senda nýja M1A2 Abrams skriðdreka, sem mun taka allt að tvö ár, stendur til að gera upp og senda eldri týpur.

Úkraínumenn tilbúnir til að hefja gagnsóknina

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir Úkraínumenn tilbúna til gagnsóknar gegn Rússum. Hann segir að sóknin verði erfið og kostnaðarsöm en hann hafi trú á því að hún muni heppnast, þó hún gæti tekið langan tíma.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.