Íslenski boltinn

Híaði á leikmann Stjörnunnar eftir að hún skoraði sjálfsmark

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hafrún Rakel Halldórsdóttir híar á Málfríði Ernu Sigurðardóttur.
Hafrún Rakel Halldórsdóttir híar á Málfríði Ernu Sigurðardóttur. stöð 2 sport

Breiðablik og Stjarnan gerðu 1-1 jafntefli í stórleik 7. umferðar Bestu deildar kvenna í gær. Fagn leikmanns Blika eftir jöfnunarmark liðsins hefur vakið talsverða athygli.

Leikurinn var afar rólegur fyrsta klukkutímann eða allt þar til Andrea Mist Pálsdóttir kom Stjörnukonum yfir með marki beint úr hornspyrnu.

Blikar sóttu í sig veðrið eftir þetta og á 68. mínútu fengu þeir upplagt færi til að skora. Vítaspyrna var þá dæmd á Sædísi Rún Heiðarsdóttur fyrir að brjóta á Hafrúnu Rakel Halldórsdóttur. Agla María Albertsdóttir tók spyrnuna en skaut í stöng.

Tveimur mínútum síðar tók Bergþóra Sól Ásmundsdóttir aukaspyrnu á hægri kantinum. Boltinn fór af höfði Málfríðar Ernu Sigurðardóttur og í netið.

Hafrún fagnaði fyrst fyrir framan Málfríði og benti svo á og nánast híaði á hana eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.

Klippa: Breiðablik 1-1 Stjarnan

Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum og 1-1 jafntefli niðurstaðan í hörkuleik. Breiðablik er í 2. sæti deildarinnar með þrettán stig og Stjarnan í því fjórða með ellefu stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.