Erlent

Páfi á leið í skurðaðgerð

Kjartan Kjartansson skrifar
Frans páfi virtist borubrattur þrátt fyrir ristilvandamál þegar hann heilsaði fólki á Péturstorgi í morgun.
Frans páfi virtist borubrattur þrátt fyrir ristilvandamál þegar hann heilsaði fólki á Péturstorgi í morgun. AP/Andrew Medichini

Frans páfi gengst undir skurðaðgerð vegna þarmateppu í dag. Páfagarður segir að páfi, sem er 86 ára gamall, verði svæfður fyrir aðgerðina og verði haldið á sjúkrahúsi í Róm í nokkra daga.

Læknar fjarlægður um 33 sentímetra af ristli Frans páfa fyrir tveimur árum. Eftir hana sagðist hann ekki hafa brugðist vel við svæfingunni. Það var ástæðan fyrir því að hann lét ekki skera sig upp vegna hnjávandamála sem hafa hrjáð hann. Páfi hefur þess vegna þurft að nota hjólastól eða göngugrind í meira en ár, að sögn AP-fréttastofunnar.

Sömu bólgur og þrengingar sem leiddu til aðgerðarinnar árið 2021 hafa síðan tekið sig upp aftur. Frans verður skorinn upp á kviði þar sem ígræðslu verður komið fyrir í kviðveggnum, að sögn Páfagarðs.

Þrátt fyrir óþægindin hefur páfi verið á þönum upp á síðkastið. Páfagarður staðfesti einnig nýlega að hann ætli að heimsækja bæði Portúgal og Mongólíu í ágúst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×