Um­fjöllun og við­töl: KA - Grinda­­­vík 2-1 | Akur­eyringar í undan­úr­slit eftir tor­­sóttan sigur

Árni Gísli Magnússon skrifar
KA er komið í undanúrslit.
KA er komið í undanúrslit. Vísir/Hulda Margrét

KA varð í dag þriðja liðið til að tryggja sig í undanúrslit Mjólkurbikars karla eftir 2-1 sigur á Grindavík á Akureyri. Jakob Snær Árnason skoraði sigurmark leiksins á 88. mínútu eftir að Grindvíkingar höfðu komið til baka í síðari hálfleik.

Það var ljóst strax frá upphafi að KA ætlaði sér að stjórna leiknum en Grindvíkingar voru vel skipulagðir og vörðust nokkuð vel en KA fékk heilan helling af hornspyrnum sem gestirnir vörðust einnig vel.

Fyrsta alvöru færi leiksins kom á 24. mínútu þegar KA tók stutt horn og Hrannar átti fyrirgjöf inn á teig þar sem Dusan Brkovic náði skallanum við markteig en Aron Dagur í marki gestanna varði frábærlega.

10 mínútum síðar fékk Bjarni Aðalsteinsson svipað skallafæri en hitti boltann ekki nægilega vel og Aron Dagur náði að koma í veg fyrir að boltinn endaði í netinu.

Örfáum sekúndum áður en fyrri hálfleik lauk kom Birgir Baldvinsson, vinstri bakvörður KA, heimamönnum yfir. Eftir fyrirgjöf inn á teiginn skallaði Bjarki Aðalsteinsson boltann frá en beint fyrir fætur Birgis sem tók við boltanum og átti fast skot í fjærhornið.

Strax eftir markið var flautað til hálfleiks og KA leiddi því með einu marki.

Óskar Örn Hauksson komst í ágætis stöðu snemma í síðari hálfleik þegar hann fékk sendingu til baka við vítateiginn og átti fast skot sem fór rétt yfir markið.

Á 60. mínútu benti dómari leiksins á punktinn þegar virtist vera brotið á Rodri innan teigs en ákvörðunni var svo breytt og hendi dæmd á Rodri í aðdragandanum við afar lítinn fögnuð KA manna.

Á 68. mínútu barst boltinn til Marko Vardic rétt fyrir utan teig KA eftir smá barning og Marko tók boltann aðeins til hægri og átti svo frábært hnitmiðað innanfótarskot upp í fjærhornið og boltinn söng í netinu. Staðan 1-1.

Leikurinn var nokkuð jafn eftir markið en heimamenn leituðu harðar að jöfnunarmarkinu sem kom svo loks á 88. mínútu. Jakob Snær var felldur við teig gestanna en ekkert dæmt. 

Bjarni Aðalsteinsson vann boltann strax aftur og þá vildu Grindvíkingar fá brot en leikurinn gekk áfram. Hallgrímur Mar átti svo utanfótarsendingu inn á Elfar Árna sem setti boltann í fyrsta fyrir Jakob Snæ sem kláraði þröngt færið vel og tryggði KA sigur.

Af hverju vann KA?

KA menn bjuggu sér ekki til mörg hættuleg færi í dag en voru þó töluvert skeinuhættari en Grindvíkingar og leituðu meira að jöfnunarmakinu sem skilaði sér heldur betur.

Hverjir stóðu upp úr?

Birgir Baldvinsson stóð sig vel í vinstri bakverðinum hjá KA. Skilaði góðu varnarhlutverki og mjög ógnandi sóknarlega sem skilaði honum marki. Jakob Snær og Elfar Árni áttu flotta innkomu og búa til seinna markið.

Hjá Grindavík var Marko Vardic öflugur á miðjunni og skoraði frábært mark. Sigurjón Rúnarsson og Bjarki Aðalsteinsson voru góðir í miðvarðarstöðunni þrátt fyrir að hafa fengið tvö mörk í andlitið.

Hvað gekk illa?

KA var oftast nær undir í baráttunni í háloftunum gegn sterkum Grindvíkingum. Á móti gekk Grindvíkingum illa að tengja saman sendingar í fyrri hálfleik og komust lítið áleiðis.

Hvað gerist næst?

KA er komið í undanúrslit bikarsins en Grindavík dottið úr leik. Næsti leikur KA í Bestu deildinni er á heimavelli gegn Fylki laugardaginn 10. júní kl. 14:00 Á sama tíma mætast Grindavík og Leiknir R. í Lengjudeildinni.

Heilt yfir fannst mér við tapa þessum leik ósanngjarnt

Helgi Sigurðsson tók við Grindavík fyrir tímabilið.Grindavík

Helgi Sigurðsson, þjálfari Grindavíkur, var ánægður með seinni hálfeikinn þegar lið hans datt út gegn KA í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins en jafnframt svekktur að fá ekkert úr leiknum.

„Þetta var náttúrulega bara hundfúlt. Mér fannst við spila mjög vel hérna í seinni hálfleik. Við töluðum um það í hálfleik að við þyrftum að hætta sýna þeim þessa virðingu og þora meira; halda í boltann og vera aggressívir. Mér fannst leikmennirnir gera nákvæmlega það í seinni hálfleik. Mér fannst við eiginlega ofan á í seinni hálfleik, þeir áttu varla færi fram að þessu marki og þetta kemur á ömurlegum tíma en það sýnir okkur að þegar menn hafa trú á þessu og þora spila boltanum og eru aggressívir þá getum við unnið hvaða lið sem er. Það vantaði kannski smá í það í fyrri hálfleik en seinni hálfleikurinn frábær og heilt yfir fannst mér við tapa þessum leik ósanngjarnt.”

Grindvíkingar voru mjög vel skipulagðir og unnu hvert einvígið á fætur öðru á meðan sóknarleikurinn var ekki í hávegum hafður.

„Við höfum verið mjög sterkir varnarlega í langflestum leikjum. Fyrir þennan leik erum við búnir með 8 leiki í deild og bikar og erum búnir að halda hreinu held ég fimm sinnum þannig að það er bara mjög jákvætt fyrir liðið. Á hinn bóginn þurfum við að vera aðeins beittari sóknarlega og skapa okkur fleiri færi en mér fannst menn vera koma sér í góðar stöður en það vantaði oft mennina til að reka þess að reka tána í boltann fyrir framan markið. Vorum að fá of fáa menn oft í teiginn og við þurfum að fjölga þeim til að eiga meiri möguleika á að skora mörk.”

Eins og fyrr segir komust Grindvíkingar lítið áleiðis sóknarlega, sérstaklega í fyrri hálfleik, og kallar Helgi eftir fleiri mönnum í teiginn.

„Okkur vantar menn inn í teig oft á tíðum, ég er ekki að segja alltaf, en oft á tíðum erum við komnir í góðar stöður og þá þurfum við að trúa því og treysta að sá maður sem er á boltanum komi honum í hættulegu svæðin og þar verðum við hreinlega að vera. Við þurfum að vera gráðugri til að skora fleiri mörk því við erum að koma okkur í góðar stöður en það vantar oft svona síðasta naglann til að klára það.”

Grindvíkingar vildu fá dæmt brot í aðdraganda sigurmarks KA þegar boltinn er tekinn af leikmanni þeirra. KA menn vildu sömuleiðis fá brot rétt áður en dómarinn lét leik halda áfram í bæði skiptin. Hvernig sá Helgi það atvik?

„Ég sé það ekki nógu alveg af því það eru allir að detta um hvorn annan en okkar menn segja að það hafi verið klárt bort á varnarmanninn þarna í aðdraganda marksins og ég þarf auðvitað bara að skoða það. Ég er ekki svo heppinn að hafa séð þetta í sjónvarpinu en ég gat ekki séð það en mínir leikmenn eru brjálaðir yfir þessu og vilja meina að hafi verið brotið á okkur í aðdraganda marksins.”

Grindavík er í 3. sæti Lengjudeildarinnar þremur stigum frá toppnum eftir 5 umferðir. Aðeins efsta liðið fer beint upp en næstu fjögur þurfa í umspil.

„Við höfum engra kosta völ í því. Við erum úr í þessu og erum hundfúlir með það því við ætluðum okkur lengra. Erum búnir að vinna Val og Aftureldingu og vinna erfið lið á útvöllum og svo sem farið erfiðari leiðina í þessu, alltaf á útivelli nema á móti Dalvík/Reyni, þannig við töldum okkur eiga góðan séns í dag og það er hundfúlt, sérstaklega eftir seinni hálfleikinn, að fá ekkert meira út úr þessu en við þurfum bara að sleikja sárin í kvöld og svo bara vera klárir í þetta. Það eru fjórir dagar í næsta leik og leikirnir í Lengjudeildinni eru allir erfiðir, það er jöfn deild eins og ég hef sagt, en það er líka langhlaup og við þurfum bara að halda fókus og spila eins og við spiluðum seinni hálfleikinn í dag. Þá kvíði ég engu.”

Sigurinn nærir

Hallgrímur var sáttur með sigurinn og sætið í undanúrslitum.Vísir/Hulda Margrét

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var stoltur af sínu liði eftir hafa tryggt farseðil í undanúrslit Mjólkurbikarsins með 2-1 heimasigri á Grindavík.

„Ég er gríðarlega ánægður með stóran part af fyrri hálfleik. Fannst við eiga jafnvel að vera meira yfir, skorum þarna í lokin og eigum fullt af fyrirgjafasénsum, boltinn lekur fram hjá einu sinni og Rodri nálægt því að skora. Fullt af hornum og spilum bara virkilega vel á móti smá vindi og svo jafnast leikurinn aðeins í lok fyrri hálfleiks. Við komumst svo yfir og seinni hálfleikurinn er aðeins jafnari en mér finnst við klárlega vera með yfirhöndina, þeir koma aðeins ofar og ná stundum að koma í skyndisóknir á okkur, svo skora þeir náttúrulega bara frábært mark fyrir utan teig.”

KA fékk dæmt víti en dómnum var svo breytt við litla kátínu norðanmanna.

„Dómarinn var búinn að dæma víti fyrir okkur sem aðstoðardómari dæmir svo hendi á okkur sem við getum engan veginn séð í sjónvarpinu þannig þetta var svolítið stórt móment en við höldum áfram og gerum skiptingar en þeir sem koma inn koma inn með kraft og klára í rauninni leikinn fyrir okkur.”

KA hefur gengið illa í deildinni upp á síðkastið en liðið er nú komið í undanúrslit bikarins sem ætti að gefa jákvæða orku.

„Það er bara klárt mál. Sigurinn nærir og okkur vantaði einn svona góðan sigur þannig við erum bara bjartsýnir. Við eigum einn leik á móti Fylki svo kemur fínt frí, landsleikjafrí, þar sem við getum aðeins gefið strákunum frí og svo byrjað aftur að vinna í okkar málum þannig þetta mun klárlega gefa okkur byr undir báða vængi fyrir Fylkisleikinn.”

KA gerði nokkrar breytingar á byrjunarliðinu fyrir leikinn í dag enda leikjaálagið mikið.

„Við erum búnir að spila fleiri leiki held ég en öll önnur lið. Við erum komnir í undanúrslit í bikarnum og erum búnir að flýta leik á móti Víking út af Evrópukeppni þannig búið að vera mikið álag og hópurinn komist ótrúlega vel frá þessu og bara kredit á strákana. Við erum með stóran hóp og góðan hóp og náðum að nota marga í dag þannig það er bara mjög góð staða á hópnum.”

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.