Íslenski boltinn

Varð uppi fótur og fit á Ísa­firði: „Dómari hann er að míga á völlinn“

Aron Guðmundsson skrifar
Davíð Smári, þjálfari Vestra var ekki sáttur með athæfi Marc Macausland, fyrirliða Njarðvíkur
Davíð Smári, þjálfari Vestra var ekki sáttur með athæfi Marc Macausland, fyrirliða Njarðvíkur Vísir/Samsett mynd

Það átti sér stað heldur ó­vana­legt at­vik á Olísvellinum á Ísa­firði í dag þegar að heima­menn í Vestra tóku á móti Njarð­víkingum í Lengju­deild karla í knatt­spyrnu.

Marc Macaus­land, fyrir­liði Njarð­víkur, er sagður hafa kastað af sér þvagi á miðjum Olísvellinum, upp­á­tæki sem fór skiljan­lega ekki vel í heima­menn.

Leikur Vestra og Njarð­víkur var stöðvaður í kringum 22. mínútu í kjöl­far meiðsla Joao Ananias, leik­manns Njarð­víkur.

Það var þá sem mátti sjá Marc, fyrirliða Njarð­víkur skokka af vellinum og út úr mynd í beinni útsendingu frá leiknum. Skömmu síðar mátti sjá annan af að­stoðar­dómurum leiksins horfa í áttina að honum og veifa í áttina að honum fingri.

Hann heldur þá aftur inn á völlinn og krýpur á kné við hlið nokkurra liðs­fé­laga sinna, ekki ýkja langt frá dómara leiksins.

„Hey dómari! Hann er að míga á völlinn,“ mátti heyra Davíð Smára, þjálfara Vestra, hrópa í áttina að dómara leiksins.

Að­stoðar­dómari leiksins, labbar þá í áttina að Davíð Smára sem svarar honum um leið og segir að dómara­t­eymið verði að taka á þessu.

Kallað var eftir því úr stúkunni á Olísvellinum að um­ræddur leik­maður fengi spjald að launum fyrir at­hæfi sitt en svo varð ekki úr.

Davíð Smári ræddi at­vikið í við­tali við Fót­bolta.net eftir leik.

„Það sáu það allir og við vorum að benda dómaranum á það að leik­maður Njarð­víkur væri að hafa þvag­lát á vellinum. Ég veit ekki hvernig þeir fóru að því að sjá það ekki, en svona er þetta bara.“

Umrætt atvik úr leik dagsins má sjá hér fyrir neðan:
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.