Á vef Veðurstofunnar segir að það verði skýjað að mestu á vesturhluta landsins og dálítil súld fram eftir degi, og þar verði hiti á bilinu sjö til tólf stig. Á austanverðu landinu megi hins vegar búast við björtu veðri og hita að tuttugu stigum þar sem best lætur.
„Vestlæg eða breytileg átt á morgun, gola, kaldi eða strekkingur. Það verður áfram bjart að mestu austanlands, annars skýjað með köflum, og eftir hádegi má búast við þokusúld við vesturströndina. Hiti 8 til 20 stig, hlýjast á Suðausturlandi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Vestlæg eða breytileg átt 5-13 m/s. Skýjað með köflum og yfirleitt þurrt, en líkur á súld vestast. Víða bjartviðri um landið austanvert. Hiti 8 til 19 stig, hlýjast á Suðausturlandi.
Á fimmtudag, föstudag og laugardag: Suðvestan og vestan 5-13, hvassast norðvestantil. Skýjað á vestanverðu landinu og súld eða dálítil rigning með köflum, hiti 8 til 13 stig. Víða léttskýjað á austurhelmingi landsins með 11 til 20 stiga hita, en líkur á þokulofti við ströndina.
Á sunnudag (sjómannadagurinn): Sunnan og suðvestan 5-10 og lítilsháttar rigning, en bjart með köflum og þurrt um landið austanvert. Hiti breytist lítið.
Á mánudag: Suðvestlæg átt og rigning með köflum, en yfirleitt þurrt um landið norðaustanvert.