Erlent

Laug til um ástar­sam­band við mun yngri sam­starfs­mann

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Phillip Schofield hefur lengi verið vinsælasti sjónvarpsmaður Bretlands. Spjót slúðurblaðanna beinast nú að honum.
Phillip Schofield hefur lengi verið vinsælasti sjónvarpsmaður Bretlands. Spjót slúðurblaðanna beinast nú að honum. Getty/Max Mumby

Breski sjónvarpsmaðurinn Phillip Schofield hefur hætt störfum hjá sjónvarpsstöðinni ITV eftir að upp komst um ástarsamband hans við mun yngri karlmann, sem vann á stöðinni. Samstarfsfólk segir hann lygara og haldinn ranghugmyndum.

Mikið hefur farið fyrir Schofield, sem stýrði morgunþættinum vinsæla This morning á ITV, á forsíðum bresku slúðurblaðanna síðustu daga, eða frá því að hann viðurkenndi að hafa átt í ástarsambandi við mun yngri samstarfsmann á stöðinni. Schofield er sjálfur 61 árs. Hann skildi við eiginkonu sína til margra ára fyrir tveimur árum þegar hann kom út úr skápnum.

Hann sendi frá sér yfirlýsingu í blaðinu Daily mail þar sem hann gekkst við sambandinu og viðurkenndi að hafa logið að öðrum samstarfsmönnum og vinnuveitenda, sem hafði rannsakað sambandið í kjölfar ábendinga. Hann hefur nú sent ITV lausnarbeiðni.

Kynntist táningi

Samkvæmt Sky news átti Schofield í sambandi við mann sem var táningur þegar þeir Schofield kynntust fyrst. Sá hafi ekki viljað að samband þeirra yrði opinbert. 

Í yfirlýsingu sagði Schofield að báðir hafi verið samþykkir sambandinu.

„Öfugt við getgátur kynntist ég honum þegar hann var enn táningur og ég var beðinn um að ryðja brautina fyrir hann innan bransans. Það var ekki fyrr en hann hóf störf við þáttagerðina sem sambandið varð meira en vinasamband,“ segir í yfirlýsingu Schofield.

„Þetta samband var heimskulegt, en ekki ólöglegt. Það er nú búið.“

Lygari með ranghugmyndir

Eamonn Holmes sem stýrði morgunþættinum með Schofield gaf einnig frá sér yfirlýsingu þar sem hann kallar Schofield lygara og að hann væri „tregur til að gefa lygaranum meira umtal.“ 

Yfirlýsinguna sendi Holmes frá sér vegna orða Schofield um að gagnrýnendur hans væru aðeins „nokkrir einstaklingar sem hafa lengi haft horn í síðu mér,“ eins og hann orðaði það.

Holmes taldi orðunum beint að sér og svaraði fullum hálsi:

„Þú valdir ranga manneskju... ef þú ert að leita þér að slag.“

Félagarnir og fyrrum samstarfsmennirnir Eamonn og Phillip þegar allt lék í lyndi við stjórn morgunþáttarins.Skjáskot


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.