Veður

Ill­viðri yfir fyrstu ferða­helgina: „Bílar gætu jafn­vel fokið“

Árni Sæberg og Sigurður Orri Kristjánsson skrifa
Haraldur Ólafsson veðurfræðingur spáir vondu veðri yfir hvítasunnuhelgina.
Haraldur Ólafsson veðurfræðingur spáir vondu veðri yfir hvítasunnuhelgina. Stöð 2

Lítið sem ekkert ferðaveður verður yfir hvítasunnuhelgina, sem oft er kölluð fyrsta ferðahelgi ársins. Veðurfræðingur segir bálhvasst verða í nótt og í fyrramálið en að bjart og fallegt verði yfir laugardaginn á vestanverðu landinu.

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir fyrir Norðurland, Austurland, Suðausturland og miðhálendið. Viðvaranirnar taka flestar gildi í fyrramálið og gilda til klukkan þrjú. Einhverjar taka þó gildi í kvöld.

„Það verður leiðindaveður í nótt og í fyrramálið, nánast um allt land, þræsingur og kalt og rigning víðast hvar. Slydda sums staðar fyrir norðan. Svo verður bálhvasst á Austurlandi fram eftir degi á morgun, það verður svo hvasst að bílar gætu jafnvel fokið,“ sagði Haraldur Ólafsson veðurfræðingur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Hann segir að veðrið muni þó ganga niður vestanlands í fyrramálið og að morgundagurinn líti nokkuð vel út þar. 

„Það verður líklega bjart. Að vísu næðingur og svalt en fallegt veður hugsa ég. Og það verður, held ég, besti dagur helgarinnar hér um vestanvert landið.

Versnar aftur á sunnudag

Haraldur segir að veður muni aftur versna á vestan- og suðvestanverðu landinu á sunnudag. „Þá bara gengur hann í sunnanátt aftur. Það fer að rigna á Suður- og Vesturlandi og það verður blautt bæði á sunnudag og mánudag.

Hins vegar segir hann að veður verði sennilega með betra móti á Austur- og Norðausturlandi á mánudag og fram eftir næstu viku.

„Það gætu komið mjög góðir dagar á Austur- og Norðausturlandi og í sjálfu sér ekkert svo slæmt vestanlands,“ segir Haraldur að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.